Bara nafnið „Festive Doodle“ var nóg til að fá mig til þess að vilja prjóna þessa peysu. Fyrir utan það, þá finnst mér hún líka alveg ótrúlega flott. Og auðvelt munsturprjón líka, alltaf bara tveir litir í einu. Peysan er prjónuð ofan frá og niður, almunstruð.

Ég gæti semsagt ekki hafa verið meira spennt yfir þessu verkefni. Þetta var jóladags-uppfitið mitt. Fitjaði uppá og prjónaði eins og vindurinn. Nota uppgefna prjónastærð og garn í sama grófleika og gefið er upp. Ég tók til garn eins og sagði til um. 1 400g hespu fyrir ljósbleika litinn (Vatnsnes Yarn litur Karol) og ljósgræna litinn (Vatnsnes Yarn litur Aftermath) . 2 400g hespur fyrir dökkrauða (Vatnsnes Yarn litur Burdox) og ljósasta litinn (Vatnsnes Yarn litur Dröfn).

Alltaf af og til er ég að spá og spekúlera hversu ótrúlega drjúgt þetta garn er. Er líka aðeins að hugsa hvort það hafi verið pínu mistök að para saman Aftermath (ljósgræni) og Dröfn (ljósasti) en ég var eiginlega komin niður fyrir ermar þegar ég var að hugsa þetta og ákvað að þetta færi ekki í taugarnar á mér. Hefði samt tæknilega séð viljað meiri kontrast þarna á milli.

Ég veð áfram í prjóninu í jólafríinu og er svo önnum kafin að ég er ekkert að lyfta henni upp neitt mikið. Er bara eins og einhvert hrúgald í horninu mínu í sófanum, hornsófi sem ég er með eina sessu í (í horninu) og við hliðina á mér annarsvegar eru tvær sessur sem aðrir geta setið í en hinum megin eru 770 verkefnapokar og 770 hnyklar, boltar, hespur, spottar af garni.

Lyfti svo peysunni upp.

Þú veist…

Kemur í ljós að ástæðan fyrir því að garnið er svona líka drjúgt er að þrátt fyrir að ég sé að prjóna stærð 3, sem er Large er peysan á stærð við peysuna sem ég gerði á 7 ára dóttur mína hér um daginn.

Hvaða….?!?

Reyndar held ég að Festive Doodle peysan sem ég er að prjóna sé ekki einusinni í réttum hlutföllum á þá 7 ára og heldur ekki almennilega nógu stór. Ég taldi lykkjur og þær pössuðu alveg við stærðina sem ég er að prjóna. Leit þá á prjónfestuna.

Ég gerði ekki prjónfestuprufu vegna þess að alltaf þegar ég prjóna þá er það sem ég prjóna bara í venjulegri stærð og hefur hingað til passað. Þannig ég er ekki laus- né fastprjónari, þó ég glöð myndi vilja ganga í þau félög, ég er bara normal prjónari sem ekkert sérstakt er við. Tilheyri hvergi, væl!

En, ég taldi út prjónfestuna sem er á þessari blessuðu flík. Í uppskriftinni er gefið upp 21L á 10cm. Ég er með 28L! Sem útskýrir allt þetta mál.

Mig grunar að ég verði að rekja þessa flík upp. Eftir að þetta komst upp hef ég ekkert gripið í þetta verkefni. Grunar nú að það sé útaf því að ég nenni ekki að prjóna eitthvað sem kemur ekki til með að passa á neinn.

Kannski prufa ég að prjóna hana úr DK grófleika, grunar að ég myndi vera nær uppgefinni prjónfestu þar. Get eiginlega ekki hugsað mér að skipta um prjónastærð, ss prjóna fingering garn með stærri prjónum þar sem þá yrði prjónlesið svo gisið sem ég er ekki viss um að mér þætti flott og það myndi ábyggilega sjást í böndin á bakvið, flóterana.

Fúlt, en þegar ég prjóna, þá vil ég eiginlega prjóna eitthvað sem ég eða einhver annar mun nota. Svo ég held að hún fái að fjúka blessunin.

Grófleiki garns

Talandi um grófleika garns og prjónfestu. Ég tók saman smávegis upplýsingaskjal (ef þú ert á póstlistanum mínum ertu búin/n að fá þetta sent ;) ) með yfirliti yfir grófleika garns, heiti á íslensku og ensku, hvað það kallast á Ravelry, metrafjölda í 100g, viðmiðandi prjón- og heklfestu og prjóna- og heklunálastærðir. Gæti verið ágætt að hafa þetta við höndina :)

Smelltu á linkinn til að sækja skjalið:

Grófleiki garns

Það er Kristín sem ritar - lýsandi stikkorð:

handlitari + vefhönnuður + útgefandi // listrænn stjórnandi + fjölástríðufullur prjónari // þverflautuleikari + tilfallandi klúðrari // fylgjumst að á Insta @vatnsnesyarn.kristin

2 Comments

  1. Anna Annesd. 9. mars 2021 at 21:03 - Reply

    Ha ha, Manstu ég sendi þér mynd mín var úr mosa millu og fl.litum. Þetta var nákvæmlega það sem ég lenti í með mína peysu tók samt einu númeri stærra en ég þurfti samkvæmt uppskrift. Ég prjóna líka bara normal. Held að höfundurinn prjóni ótrúlega laust. Ég var búin að gera allskyns kúnstir með mína peysu lengja munstrin og jafnvel búa til mín eigin því mér fannst hún í styttra lagi að handveg, var einmitt komin niður fyrir handveg og búin með ermarnar (rosa dugleg) þegar ég mátaði. Og úpps ég var eins og strengdur köttur í peysunni en samt með fínar ermar. Tók mig svolítið langan tíma til koma mér að því að rekja hana upp. Svo þú átt allavegana eina þjáningasytur.kv Anna

    • Kristín 19. mars 2021 at 17:57 - Reply

      Já! nkl. Kona VERÐUR að gera prufu!

Leave A Comment

Fleiri bloggpóstar