Fréttir

Hátíðarkveðjur

Bestu þakkir fyrir rafrænu athyglina sem þú hefur veitt mér og Vatnsnes Yarn á árinu 2018. Hvort sem það var í formi “like” og kommenta á Instagram og Facebook eða sem lesandi af fréttabréfinu, tími fólks er dýrmætur og ég kann virkilega vel að meta áheyrnina.

Einnig þakka ég þeim sem áttu við mig viðskipti í gegnum www.vatnsnesyarn.is, á viðburðum eins og Handverkshátíðinni á Hrafnagili og í Garngöngunni í Reykjavík eða ef þú komst við hjá mér í Skrúðvangi á Laugarbakka síðasta sumar.

Við fjölskyldan áttum indæl jól hér heima. Aldrei þessu vant bara við 6 (plús 2 hundar, annar þeirra í pössun). Okkar jólahefðir eru eiginlega að það er engin sérstök jólahefð. Við höfum aldrei það sama í matinn tvö ár í röð, í ár var beef wellington (sjúklega gott), í fyrra önd, þar áður nautasteik og svo hefur fylltur kjúklingur, hnetusteik og m.a.s fiskréttur verið á borðum. Vegna þess að við höfðum búið erlendis lengi þá er tæknilega séð ekki hefð hjá okkur að fara í jólaboð heldur. Í ár vorum við með tvö jólatré og engin aðventuljós 🙂

Þegar við bjuggum úti fórum við t.d í jólaskrúðgöngu á Amagerbrogade í Kaupmannahöfn og í Tívolí, sem er heldur betur jólaskreytt á þessum árstíma. Hér heima höllumst við frekar að því að baka smákökur, skreyta með töluvert fleiri ljósum en úti, steikjum laufabrauð með ömmu og þ.h.

Í ár var aðfangadags-brunch, það er líklega eitthvað sem verður endurtekið, virkilega góð byrjun á aðfangadegi, léttur og bragðgóður dögurður.

Ég hef verið í langþráðu fríi núna yfir jólin. Hef varla gert annað en að prjóna. Svo heppin að það er eiginmaðurinn sem stendur í eldhúsinu, svo ég hef bara verið að fitja uppá hinu og þessu, staðið upp til að fá mér að borða og svo sest aftur að prjóna 😉 Er eiginlega búin að vera í hýði bara og inní hýðinu er fullt af garni. Hinn fullkomni staður.

[fusion_gallery image_ids=”8332,8333,8334,8335,8336,8337,8338,8339,8340,8341,8342″ layout=”grid” picture_size=”” columns=”” column_spacing=”10″ gallery_masonry_grid_ratio=”” gallery_masonry_width_double=”” hover_type=”” lightbox=”yes” lightbox_content=”” bordersize=”” bordercolor=”” border_radius=”” hide_on_mobile=”small-visibility,medium-visibility,large-visibility” class=”” id=””][/fusion_gallery]

Framundan hjá Vatnsnes Yarn

Í hýðinu hef ég einnig verið að hugsa og móta hverjar áherslurnar eiga að vera á árinu 2019 hjá Vatnsnes Yarn.

Sem dæmi um það sem mig langar að gera er eftirfarandi:

Áskrift
Mig langar að bjóða uppá garn-áskrift. Ég á eftir að útfæra hvernig áskrift ég vil bjóða uppá en ég vil helst að áskrifendur geti valið grófleika, mögulega litaþema og að áskrifendur hafi tíma til að gera eitthvað úr garninu áður en næsta box kemur. Box ? Já, vil hafa allt í boxi 🙂

Litir
Framundan er einnig að móta litaúrvalið hjá mér og hvaða grunna ég býð uppá, hvort ég ætla að halda áfram að bjóða uppá litun eftir pöntun eða hvort ég á að fara í “shop update” pakkann eins og margir handlitarar gera.

Umhverfisstefna
Ég er um þessar mundir að móta umhverfisstefnu fyrirtækisins. Mér er annt um fröken Jörð og vil gera hvað ég get til þess að bjóða uppá vörur sem eru lífrænt ræktaðar, endurunnar, endurvinnanlegar og/eða unnar á ábyrgan máta. Þar sem við búum á eyju sem um leikur allskonar veðrátta og ég rek vefverslun kemst ég illa hjá því að nota plast og ég panta vörur að utan, sem þýðir að ég skil eftir mig ákveðin fótspor í náttúrunni. Það vil ég gjarnan jafna út og er að hugsa upp aðferðir til þess. Uppástungur eru vel þegnar 🙂

Samstarf
Samstarf við hönnuði. Ég vil komast í samband við fleiri hönnuði. Ef þú veist um einhvern eða ert að hanna sjálf/ur, sendu mér þá línu <3

Árslokaafsláttur og lagerhreinsun

Það er ekki úr vegi að ljúka þessari langloku með því að bjóða þér 10% afslátt af öllum vörum í Markaðnum og í mini-hespu partíinu sem nú stendur yfir á síðunni.  Afslátturinn gildir frá og með núna og fram til 23:59 31.desember 2018.

Notaðu kóðann ARID2018 í greiðsluferlinu til þess að fá afsláttinn!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *