Nota eitthvað annað garn?
Fyrir mörgum herrans árum, en samt eftir árið 2007, þannig kannski ekki svakalega mörg herrans ár heldur bara nokkur… setti ég á persónulega bloggið mitt (skritin.is fyrir áhugasama um almennt þvaður) sem ég hef haldið úti í 11 ár og gott betur en það, reiknivél þar sem maður getur reiknað út nýjan lykkjufjölda og nýjan umferðafjölda ef maður er að skipta um garn í prjóni.
Þetta eru í raun og veru tvær reiknivélar, önnur þeirra er fyrir lykkjufjöldann (efri í þessum bloggpósti ) og hin fyrir umferðirnar (neðri). Getur verið hentugt ef þú vilt prjóna eftir uppskrift þar sem gefinn er upp Álafoss lopi en þú vilt prjóna úr Léttlopa. Eða, ef þú vilt prjóna húfu þar sem uppskriftin gerir ráð fyrir DK grófleika en þú vilt prjóna í fingering, eða öfugt. Auðvitað þarf að aðlaga allt munstur sé það til staðar að nýjum lykkju og umferðafjölda en þetta er snilldar hjálpartæki prjónalífsins.
Til þess að geta notað reiknivélarnar verður þú að gera prjónfestuprufu. Sorry! Það er bara algjör nauðsyn, þá úr garninu sem þú ætlar að nota í staðinn fyrir uppgefið garn (alveg búið á því blessað garnið.. nei djók, fæ ég fimmaur?) og ef allt á að vera slétt og fellt þá væri lang best að þvo og blokka prufuna líka. Ég er ekki 100% viss en ég geri sterklega ráð fyrir að prjónfestuprufa sem gefin er upp í uppskriftum sé þvegin og blokkuð. Þú veist, til að fá sem sannastan samanburð.
Tvær prjónfestuprufur sem ég prjónaði úr Angel DK garninu og litnum Dröfn annarsvegar (hægra megin) og Angel DK, Dröfn og lime grænt mohair garn saman (vinstra megin). Það getur alveg verið slakandi að prjóna prjónfestuprufur, svona ef maður er til í eitthvað sem ekki þarf að hugsa neitt svakalega um og er ekki með neitt þannig á prjónunum 🙂
Og þá reiknivélarnar:
Lykkjufjölda reiknivél
Slærð s.s fyrst inn lykkjufjölda skv. uppskrift, t.d uppfit á bol, eða uppfit á ermi, húfu, vettling. Svo slærðu inn uppgefinni prjónfestu á 10x10cm, skv. uppskrift, þá þína eigin prjónfestu á 10x10cm. Neðst birtist svo lykkjufjöldinn sem þú getur haft til hliðsjónar þegar þú fitjar upp með nýja garninu.
Umferðafjölda reiknivél
Sama hér, slærð inn umferðafjölda skv uppskrift, t.d í munstri. Svo slærðu inn umferðafjölda sk. uppgefinni prjónfestu í uppskrift á 10x10cm, þá þína eigin prjónfestu á 10x10cm og færð út nýjan umferðafjölda.
Spurning að ég setji þessar reiknivélar líka einhversstaðar á vefinn þar sem auðvelt er að nálgast þær 🙂
Á prjónunum
Ég er ekki að kvarta (lesist: kannski smá) en ég kemst ekki yfir það að prjóna nein ósköp. Þessa dagana er ég auðvitað á kafi í að klára aðventudagatölin. Þetta er nú bara skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur í langan tíma og hefur alið af sér fleiri verkefni sem ég er komin af stað með. Ef ég á að greina frá leyndarmáli þá er ég að vinna að Vatnsnes Yarn Accessories.. OMG! Það eru auðvitað hin ýmsu hjálpartæki prjónalífsins (ég er alveg fyrir allskonar hjálpartæki, allt er betra með réttum áhöldum..).
Aðventudagatalið fer í póst á föstudaginn n.k og mánudaginn eftir viku. Ég veit að allir í garnheimum eru alltaf spenntir yfir öllu sem viðkemur garni, prjóni og hekli en ég er í alvöru að fara af límingunum yfir því að fullgera dagatölin og senda þau frá mér. Mér finnst uppskriftin í dagatalinu æði (ég er búin að prjóna hana.. klikk flott sjal! ), mér finnst garnið í því æði (ok.. kannski smá hlutdræg) og mér finnst hitt stöffið í því geggjað!
Semsagt, á mínum prjónum er peysa á sjálfa mig, ekki vanþörf á, ég er búin að vera að grípa í sömu gráu golluna sem btw er ekki prjónuð eftir mig heldur keypt í einhverri búð í yfir 6 ár, það er alveg kominn tími á að grípa í eitthvað annað. Ég tók Comfort Fade Cardi eftir Andreu Mowry og er að feida hana öðruvísi. Ég er að feida úr dekkri bláum lit yfir í ljósbláan lit með brúnan spekklaðan (Miss Earth) lit inná milli.
Þetta eru bláu litirnir. Ég byrjaði á dekksta og ætla að enda á ljósasta.
Þetta er réttan. Hálsmálið er neðst á myndinni og lykkjurnar á prjóninum eru efst á myndinni, þannig það sést aðeins hvernig feidið kemur en það er samt frekar óljóst ennþá.
Rangan. Sem er eins og allt annað plagg og áhugavert í sjálfusér hvernig rangan og réttan gefur af sér allt, allt aðra tilfinningu. Þetta er alveg ágætis prjón að grípa í og mér finnst sniðið á Comfort fade cardi vera flott, ég er svolítið pikkí á snið á peysum. Ég er að prjóna úr Suri Merino garni sem ég var að prufa að lita og sömuleiðis BFL DK (Blue Faced Leicester) ull. BFL garnið er virkilega skemmtilegt og er á to-do listanum mínum að koma því í sölu. Suri garnið er líka skemmtilegt reyndar, þarf að kynnast því aðeins betur samt.
Þetta var allt í bili, gleðilega útreikninga kæru vinir og eigið glimrandi góða daga!