Vasadiskó (gult), farþegi í aftursæti á bílpúða (svona stórum svampi í einhverju áklæði) í beis-lituðum Volvo, Ísland þeytist framhjá mér á ógnarhraða og í eyrunum hljómar „Ofboðslega frægur“ með Stuðmönnum.

Þetta var auðvitað annaðhvort seint 1980 og eitthvað eða snemma 1990 og eitthvað og ég á ferðalagi hringinn í kringum landið með foreldrum mínum og oftar en ekki systkinum þeirra.

Þetta sumar er sérstakt sumar. Veturinn var glataður veðurslega séð og núna þegar hann er loksins búinn þá er ég í fyrsta skipti í mörg herrans ár að upplifa þegar allt lifnar við á vorin. Hefurðu lent í að það er vetur og svo ertu kannski að keyra einhversstaðar eða ganga og tekur skyndilega eftir því að allt er orðið grænt, bara eins og það hafi gerst yfir eina nótt.

Mér hefur hætt svo til að vera of mikið með nefið ofaní verkefnum líðandi stundar að ég hef bara hreinlega misst af því þegar allt lifnaði við. Einhverra hluta vegna er ég eins og beintengd við náttúruna núna, ég er að horfa á grasið grænka og ég vil taka inn allar ljósstundir dagsins.

Útnefndi svo einn lit, aðal sumarlit ársins 2020. Hann hefur fengið nafnið „Ofboðslega frægur„! (þessi sem er á myndinni hér fyrir ofan).

Garn fyrir mistök

Um daginn pantaði ég töluvert af garni en þegar það var komið til mín kom í ljós að ein tegundin hafði ekki komið heldur eitthvað annað í staðinn. Það sem kom í staðinn er sturlað! Það er garn sem er svo ótrúlega yndislega geggjað mjúkt, enda blanda af merinó ull og kasmír ull. Ég bara ligg á jörðinni ég er svo hrifin! Mér var boðið að annaðhvort skila garninu eða fá það á afslætti.

Ég hugsaði mig lengi um reyndar, en endaði á að ákveða að kaupa það því það er bara hreinlega of gott til að sleppa. Ég veit það ekki.. ætli kona verði ekki bara stundum að ákveða að mistök geti verið einhverskonar gjöf?

Það er Kristín sem ritar - lýsandi stikkorð:

handlitari + vefhönnuður + útgefandi // listrænn stjórnandi + fjölástríðufullur prjónari // þverflautuleikari + tilfallandi klúðrari // fylgjumst að á Insta @vatnsnesyarn.kristin

Leave A Comment

Fleiri bloggpóstar