
Prjónagleðin er eftir örfáa daga! Þar verður Garntorg og hvorki meira né minna en 30 söluaðilar. Verður algjör veisla. Datt í hug að setja hér inn smá lista yfir praktíska hluti sem geta kannski hjálpað þér við að framkvæma góð garnkaup. Bara svona þumalputtareglur.
Eitt sem ég hef tekið eftir þegar ég afgreiði garn er að í stórum dráttum er kaupandinn annaðhvort mjög undirbúinn og veit í hvað er verið að kaupa, eða hann er (eins og ég) með öllu óundirbúinn og laðast frekar að því að kaupa garn fyrst og finna því verkefni seinna. Ég tel báðar aðferðir fullkomnar!
Ef hinsvegar þú ert með eitthvað ákveðið í huga, gæti verið gott, að vera búin að skoða uppskriftina og skrifa ef til vill hjá sér eftirfarandi:
- Nafn uppskriftar og hvar hana er að finna (Ravelry, vefsíðu, á miða í veskinu þínu)
- Valin stærð
- Uppgefið garn (svo hægt sé að fletta því upp ef það á að kaupa annað en uppgefið garn)
- Metrafjöldi á grömm í uppgefnu garni (hjálpar til að reikna út hve mikið þarf af öðru garni en gefið er upp)
- Uppgefin prjónastærð (hjálpar til að reikna út hve mikið þarf af öðru garni en gefið er upp)
- Prjónfesta
Hlakka síðan til að sjá þig á Prjónagleðinni/Garntorginu!