Litir

Litafræði 2

Framhald af litafræðinni, semsagt tvær endurunnar færslur af persónulega blogginu mínu, þetta er hin. Í henni fer ég yfir hvernig hægt er að taka mynd og finna litainnblástur og draga svo fram garn. Ég notaði Álafosslopa sem dæmi. Fyrsta hlutann er að finna hér.

Þetta er þá semsagt það sem ég skrifaði, gjössovel:

Litafræði, kafli 2

Í síðasta pósti, kafla 1 í litafræði, fór ég yfir grunnatriði eins og litahjólið og hvernig litir spila saman.

Næst er kannski að íhuga hvar hægt sé að fá innblástur fyrir næstu litasamsetningar. Það er auðvitað misjafnt hverskonar litir og litasamsetningar það eru sem höfða til hvers og eins. En sem dæmi um það hvernig hægt er að safna sér í litasamsetningar hugmyndabanka mætti gera eftirfarandi:

  • Skoða myndir sem þú átt og leita eftir hvort það sé einhver mynd sem poppar út og þér finnst vera eitthvað fallegt við
  • Fara á annaðhvort google eða Pinterest og leita með orðum sem minna þig á eitthvað fallegt, t.d náttúra, hestur, íslensk náttúra, fuglar, bjartir litir og þar fram eftir götunum.
  • Búa til borð á Pinterest og safna þangað öllu myndum sem þú sérð á ferðalagi þínu um internetið, sem kalla á þig að einhverju leiti. Þannig getur maður safnað í smá innblásturssafn og notað næst þegar velja á liti.
  • Fara út og taka myndir af umhverfinu, það finnast líka góðir litir á húsum og í blómabeðum nágrannans.
  • Skoða myndir af því sem aðrir hafa prjónað og t.d pinna á Pinterest það sem þér þykir falleg litasamsetning á flík.

Og þá er komið að kennslustund dagsins. Ég valdi mér þrjár myndir og ákvað að para Álafosslopa saman við litina sem ég valdi frá myndunum.

Það sem mér finnst vera einna svalast við Móður náttúru, er hvað litir í náttúrunni passa alltaf saman. Það er aldrei litur sem ekki passar fullkomlega við hina í kring. Sjáðu bara hvernig gráhvítur himininn á þessari mynd passar fullkomlega við litina í hestunum.


Ég valdi þrjá brúna liti, gráan og hvítan úr þessari mynd. Ég notaði litatólið frá Adobe en þar er hægt að hala upp mynd og tólið dregur liti úr myndinni fyrir mann og maður getur líka gert það sjálfur.

Þegar ég var síðan búin að ákveða hvaða liti ég vildi fá úr myndinni paraði ég Álafosslopann saman við, þetta eru hvítur, ljósgrár, mórauður, ljósmórauður og dökk mórauður.

Íslenska hænan er líka frekar litrík. Þarna hef ég parað Álafoss litina ljósrauðleitur, ljósmóleitur, ólívugrænn, rafgulur og hærusvartur saman við litina sem ég fann í myndinni.

Síðast er hér mynd af einhverskonar eggjum, ég veit því miður ekki hvaða egg þetta eru, villt egg af einhverju tagi, EN! ertu að sjá að eggjarauðan er fullkomin við bót við litina í eggjunum! Ég er algjörlega blásin útaf (blown away) hvað allt í náttúrunni er fullkomið, engu við að bæta og ekkert hægt að taka frá.

Hér höfum við þá hvítan, lit sem kallast heiði, annan sem kallast norðurskaut, glóð og svo rafgula samkembu.

Ég nota aldeilis ekki alltaf fimm liti þegar ég prjóna eða hekla, á síðustu myndinni finnst mér t.d miðjulitirnir þrír vera afar fallegir saman, en er ekki vissum að ég myndi hafa þennan brúna með þeim endilega.

Og hér er lítið dæmi um það hvernig má para saman mismunandi samsetningar úr litum frá einni mynd.

 

Gangi þér vel að velja liti :). Alveg velkomið að skilja eftir komment ef þú hefur spurningar varðandi liti!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *