Kristín Guðmunds – Listrænn stjórnandi og einráður hjá Vatnsnes Yarn

Ég heiti Kristín Guðmundsdóttir og er, eins og margir, með æði fyrir garni. Ég lærði að prjóna í grunnskóla. Því miður fylgir því ekki rómantísk nostralgíu tilfinning þar sem A) kennarinn var á „fljótandi fæði“ og reykti eins og skorsteinn, andfúl með eindæmum, og B) ég man mjög greinilega eftir að hafa sest á títuprjón sem einhver óprúttinn aðili hafði fest þannig í stólinn að hann stóð upp. Það var verra að taka hann úr heldur en að setjast á hann get ég sagt þér.

Ég greip í prjónana í fyrsta skipti fyrir einhverja alvöru árið 2001 þegar ég var ófrísk af fyrsta barni. Ég kom svo ekki við þá aftur fyrr en árið 2005 þegar ég var ófrísk af 3 barni, núna er staðan þannig að ef ég prjóna ekki á hverjum degi, fæ ég fráhvarfseinkenni.

Fyrst prjónaði ég alltaf úr íslensku ullinni. Ég er mjög hrifin af henni, en ég er ekki minna hrifin af bandi sem er mjúk merínó ull, eða einhver undraverð blanda af þræði eins og merínó ull, silki, kasmír og hör. Ekki síðri er tilfinningin við að sjá hvernig mismunandi þræðir taka við lit.

Lita upplausnirnar sem ég nota blanda ég sjálf eftir eigin reikniformúlum, en litirnir eru bæði vatnsfastir og ljósfastir.

Garnið frá Vatnsnes Yarn er handlituð gæðavara, yfirleitt ull eða blanda af ull og öðrum spunatrefjum eins og silki. Litunin fer fram í smáum upplögum og er af listrænum toga, garnið sem tilbúin vara er því einstakt í sinni mynd.

Markmið mitt með því að hanna liti og litasamsetningar og koma þeim í form á garni er að færa prjónurum og heklurum einstakan, gæða efnivið í næsta verkefni.

Fréttabréf! Það er afsláttur í boði fyrir nýja áskrifendur, af fyrstu kaupum

Fréttabréfið getur innihaldið garnsögur, einhverskonar fróðleik, tilboð til áskrifenda og tilkynningar sem mér finnst mikilvægt að þú vitir af