Af Halldóru Bjarnadóttur og hælnum sem við hana er kenndur
Þessi færsla er upphaflega skrifuð árið 2014 og birtist þá á vef vefverslunar sem ég átti. Þessvegna eru allar myndirnar merktar allt öðrum vef en þessum. Ég tímdi ekki að eyða þeim skrifum sem ég hafði lagt vinnu í og geymdi allar garn-færslurnar mínar á blogginu mínu, en þessa færslu er einnig að finna þar.
Núna, fyrst ég er búin að opna fyrir að blogga hér, finnst mér upplagt að draga skrifin fram, en ástæðan fyrir að ég yfirhöfuð mundi eftir þessu er video-dagbókin hennar Guðlaugar, Þræðir, á YouTube (hæ Guðlaug 🙂 ).
Og hér fer þá hin upphaflega færsla:
Halldóruhæll er jafnan kenndur við Halldóru Bjarnadóttur (f.1873 – d.1981). Halldóra er fyrir margar sakir merkileg kona. Hér tæpi ég aðeins á því og set fram leiðbeiningar fyrir hvernig annars á að prjóna þennan víðfræga hæl.
Hún var við nám í Noregi á árunum 1896-99, þar sem hún lauk kennaraprófi. Halldóra var skólastjóri Barnaskólans á Akureyri um tíu ára skeið og lagði þar áherslu á að bæði drengjum og telpum yrði kennd handavinna. Hún kom einnig á fleiri nýjungum eins og tannskoðun og lagði áherslu á að börnum yrði kennt að tannbursta sig. 1922 flutti Halldóra svo til Reykjavíkur til þess að sinna handavinnukennarastöðu við Kennaraskólann. Í gegnum þá stöðu hafði Halldóra víðtæk áhrif á handavinnu kennslu í íslenskum barnaskólum í áraraðir og enn eimir sjálfsagt af hennar aðferðum.
Halldóra var ötul kona. Hún átti stóran hlut í stofnun Sambands norðlenskra kvenna og var fyrsti formaður þess. Reyndar átti hún líka þátt í stofnun kvenfélaga útum allt land. Hún var ritstjóri tímaritsins Hlín sem Samband norðlenskra kvenna gaf út, hún stofnaði og rak Tóvinnuskólann á Svalbarði í Eyjafirði og afrekaði að vera kosin í bæjarstjórn Akureyrar af kvennalista árið 1921, þar sat hún að sjálfsögðu í skólanefnd.
Fyrir utan allt þetta þá ferðaðist Halldóra um Ísland og kenndi handavinnu og þar á meðal hinn víðfræga hæl sem við hana er kenndur, Halldóruhæl.
Sagan segir að þegar hart hafi verið í ári, hafi Halldóru áskotnast skoskir sjómannssokkar sem hún síðan rakti upp og lærði þannig hvernig voru prjónaðir. Hún hóf framleiðslu á sokkunum og voru meira að segja settar ákveðnar reglur um þyngd, lögun, númer og verð. Sokkarnir seldust eins og heitar lummur enda þótti á þeim tíma fínt að ganga í sokkum með Halldóruhæl og í uppreimuðum klossum.
Hér koma leiðbeiningar að því hvernig hægt er að prjóna Halldóruhæl.
Ég hef rekist á nokkrar aðferðir við Halldóruhæl, sem sumstaðar er kallaður bandhæll. Það sem mér finnst heppilegt við þessa aðferð er hvernig úrtöku í hæltungu er hagað.
Mörgum finnst hællinn vera algjör steinn í götu sokkaprjónsins, en þetta er ekki eins mikið mál og maður heldur. Bara fyrst, eins og með allt annað.
Hér geri ég ráð fyrir að þú sért að nota fimm sokka prjóna. Fjóra með jafnmörgum lykkjum á og einn sem þú notar til að prjóna með. Sokkurinn á meðfylgjandi myndum er prjónaður með Kambgarni á prjóna númer 3, og er með 13 lykkjum á hverjum prjóni og stroffið er prjónað 1 slétt, 1 brugðin, til skiptis.
Og hefst þá gerð hæls.
Þegar stroffið er orðið ásættanlega langt (þú ákveður það), er komið að því að prjóna hælinn. Undirbúningsskrefið er að prjónn 1 er prjónaður og svo eru lykkjurnar á prjóni 2 prjónaðar á prjón 1 líka, þannig að fimmti prjónninn gengur af. Þannig er búið að sameina prjón 1 og 2 á prjón 1 (= byrjun á hælstalli). Prjónn 3 og 4 eru ristarprjónar og eru geymdir á meðan hælstallur og hæltunga eru prjónuð.
Meðan þú prjónar hælinn notar þú bara fjóra prjóna, ristarprjónarnir tveir eru geymdir á meðan þú notar tvo til þess að prjóna hælstallinn fram og til baka, geymdu þann fimmta á góðum stað ;).
1. Fyrsta skrefið – hælstallur
Hælstallurinn er prjónaður fram og til baka (=lykkjurnar á prjóni 1), slétt prjón á réttunni og brugðið á röngunni. Gott er að miða við að fjöldi lykkjanna sem myndast í kantinum á hælstalli séu tveimur færri en upphaflega talan á hverjum prjóni (hér ættu þá að vera 13-2=11 lykkjur).
Takið fyrstu lykkjuna í hverri umferð óprjónaða, slétt á réttunni og brugðið á röngunni.
2. Annað skref – hæltunga
Hæltungan er fengin með úrtöku sem myndar sjálfan hælinn á sokknum.
Fyrsta verk er að skipta lykkjufjöldanum í þrennt. Tvær hliðar og miðja. Lykkjufjöldi í hliðum á að vera sá sami. T.d ef lykkjufjöldinn á öllum prjóninum stendur í oddatölu, er afgangslykkjan höfð í miðjunni. Eða eins og ég er með á þessum sokk þá eru 8 lykkjur í hliðum en 10 í miðjunni ( = 26 lykkjur á hælstalli).
Haldið áfram að prjóna fram og til baka, fyrsta úrtöku umferð er prjónuð á röngunni.
Úrtaka: Prjónið fram yfir hliðarlykkjurnar sem eru fyrst á prjóninum og miðjuhlutann (að hliðarlykkjum sem eru fjær á prjóni), snúið við. Takið eina lykkju óprjónaða og prjónið til baka yfir miðjuhlutann (að hliðarlykkjum), snúið við. Takið eina lykkju óprjónaða, prjónið áfram þar til ein lykkja er eftir að gati (sem myndaðist í síðustu ufm.).
- Takið þá eina lykkju óprjónaða (þessa síðustu fyrir framan gatið) prjónið 1 lykkju (þessa hinum megin við gatið) og steypið svo þessari óprjónuðu yfir prjónuðu lykkjuna, snúið við.
- Prjónið að síðustu lykkju fyrir gat, prjónið tvær lykkjur saman (þessar tvær sínhvoru megin við gatið, snúið við. Prjónið að síðustu lykkju fyrir gat.
Endurtakið þessa punkta þar til hliðarlykkjurnar eru búnar og aðeins miðjulykkjurnar eftir.
Þriðja skref : upptaka á lykkjum á hælstalli
Ef þú ert eitthvað eins og ég þá er þetta skref alveg eitthvað til að klóra sér í kollinum yfir. En við munum komast yfir þetta saman!
Ég hef verið að gera þetta svona:
Haltu á sokknum eins og þú ætlir að halda áfram að prjóna (réttan ætti að snúa að þér, þú ættir ekki að sjá inní og ofaní sokkinn), þú munt þá vera með prjóninn með hæltungu lykkjunum á í hægri hönd og svo er bara hælstalls-kanturinn næst, þar þarftu að taka upp eina lykkju í hverri lykkju sem liggur í kantinum, þ.e þræða þær uppá annan prjón.
Svo prjónar þú hratt og örugglega yfir lykkjurnar sem þú tókst upp í kantinum (slétt). Gjarnan má prjóna þær snúnar þ.e ferð í þær aftanfrá, svo ekki myndist gat.
Þá er prjónað slétt yfir ristarprjónana sem hafa verið geymdir á meðan hælstallur og hæltunga voru prjónuð.
Þegar þú kemur að hinni hliðinni á hælstallinum, gerirðu eins, þræðir lykkjur uppá prjóninn og prjónar hann svo. Síðast en ekki síst, er lykkjunum sem nú sitja á hæltungu-prjóninum skipt jafnt á milli prjónanna sem voru notaðir til þess að taka upp lykkjur í köntunum.
Fjórða (og síðasta) skref : úrtaka aukalykkja
Nú þegar allt fer að líta eðlilega út aftur, komnir fjórir prjónar í gang og svona, á bara eftir að fækka lykkjunum niður í upphaflega tölu. Vegna þess að hæltungulykkjunum var skipt á milli hælprjónanna er líklegt að það séu tvær til þrjár auka lykkjur sem þarf að taka úr og það er t.d gert svona:
Prjónað er í hring með 5 prjónum, líka yfir ristarprjóna. Úrtakan fer bara fram á hælprjónum sínhvoru megin við ristarprjónana. Þannig að það er tekið úr í enda hælprjónsins sem kemur á undan ristarprjónum og í byrjun hælprjónsins sem kemur á eftir ristarprjónunum.
- Í enda hælprjóns er prjónað þar til 2 lykkjur eru eftir, þá er ein tekin óprjónuð, næsta prjónuð og þeirri óprjónuðu steypt yfir.
- Í byrjun hælprjóns eru tvær lykkjur prjónaðar saman.
Þetta gerir þú í annarri hverri umferð þar til þú hefur náð upphaflegum lykkjufjölda á alla prjóna. Svo prjónar þú eins og vindurinn og klárar sokkinn og þegar þú ert komin/n að hæl á næsta sokk, þá verða það ekki prjónar 1 og 2 sem eru sameinaðir og prjónaður hæll heldur prjónar 3 og 4, en nákvæmlega sama aðferð.
Ég leyfi mér að lofa að þú kunnir þetta utanað á þriðja sokkapari. Gangi þér vel!
En skemmtilegt!!! Nú veit ég hvað Halldóruhæll er!!! Hahahaaa!! Takk kærlega fyrir þennan áhugaverða pistil 🙂