The Harbour Project & Vatnsnes Yarn
The Harbour Project er samvinna tveggja hönnuða en hönnuðirnir eru þær Edda og Arndís. Verkefnið gengur útá að opinbera eina hönnun hvor í hverjum mánuði. Í upphafi mánaðar birta þær mynd sem hvor fyrir sig mun síðan nota sem innblástur fyrir verkefni mánaðarins. Síðasta dag mánaðar er síðan birt mynd af því sem hannað var og uppskrift gefin út í framhaldi af því.
Október verkefni The Harbour Project
Í október hafa þær verið með spennandi verkefni í gangi. Það verður hönnuð peysa en Edda kemur með heklaða útgáfu og Arndís með prjónaða útgáfu. OG! Þær eru að nota garnið frá Vatnsnes Yarn í hönnunina. Ég verð varla spenntari!
Arndís er með lit sem hefur fengið nafnið „Fairy Tale“, eða „Ævintýri“ uppá íslensku. Edda fékk lit sem byggður er á litnum Norðvestur og hefur fengið nafnið Suðvestur. Báðar eru að prjóna úr Merino Cash Sport, sem er lungamjúk merínó- og kasmírullarblanda plús 10% nælon styrking, sem eins og nafnið gefur til kynna er í sport þykkt og báðar eru þær með garn sem er „spekklað“ (ég gefst upp á að reyna að þýða þetta orð). Fairy Tale er mjög litríkt og þétt-spekklað en liturinn sem ég litaði fyrir Eddu er létt-spekklaður, pínulitlar litasprengjur hér og þar.
Þetta er liturinn sem Arndís er að nota í sinni hönnun. Þetta er meira að segja smá sýnishorn af því sem koma skal.
Og hér er liturinn sem Edda er að nota. Hann er mjög ljós brúnn í grunninn en með, eins og fyrr sagði, litlum litasprengjum hér og þar. Þarna sést vel hverskonar áferð verður á flíkinni frá Eddu.
Ég bíð spennt eftir þriðjudeginum 31.október, að sjá lokaútkomuna. Sama dag mun ég setja Fairy Tale og Suðvestur í hillurnar hjá mér 🙂
Hægt er að fylgjast með Eddu og Arndísi á vefnum þeirra, The Harbour Project og svo eru þær með Ravelry síðu, Edda hér og Arndís hér.
September verkefnið þeirra er líka mega flott, getið séð það hér. Hvor um sig hannaði sjal. Ég er að upplifa Arndísi sem mjög rómantískan hönnuð og Eddu dásamlega geómetríska og grafíska.
Ég gat auðvitað ekki staðist mátið og er byrjuð að hekla sjal eftir Eddu sem heitir Þreytta blúndan. Ég er um það bil hálfnuð, svo er blúndan eftir. Er hrifin af því að Edda er með hana í marglitu garni í uppskriftinni svo ég býst við að fara útí þau skemmtilegheit. Ég er að hekla þetta úr Soft Sock ljósi liturinn er Walnut og grái er Urð og grjót
Og svo er ég með húfu eftir Arndísi næst í röðinni 🙂
31.október krakkar! Spennandi!