Blogg

Korter í jól sjalið sem ég prjónaði

Það er auðvitað langt um liðið síðan ég prjónaði Korter í jól sjalið sem Edda hannaði og var í Aðventudagatali Vatnsnes Yarn um síðustu jól. Ég var hinsvegar að ganga frá því bara núna um daginn, nánar tiltekið meðan við Eiginmaðurinn keyrðum til Reykjavíkur og til baka. Nálinni týndi ég í bílnum reyndar. En hvað um það. Bara passa sig þegar maður sest inní hann næst.

Eitt af því sem tekur tíma, tíma sem maður kannski áttar sig ekki alltaf á að sé frekar langur, er að bæði taka myndir og svo vinna myndir fyrir vef. Í mínu tilfelli er ég oft að taka myndir af garninu sem er hér til sölu en einnig af því sem ég hef verið að prjóna. Yfir veturinn er kona svolítið að berjast við að nýta tímann meðan það er þá dagsljós og getur alveg dottið í að finnast hún vera undir töluverðri pressu vegna þessa.

Það var þá núna fyrir nokkru að ég var að rembast við að vera húsmóðir með eina 5 ára í fésinu og bisnesskona með vörur sem þurfti mjög nauðsynlega að mynda, að ég stakk uppá því eftir að sú 5 ára sagði mamma í sjöhundruðþúsundasta skiptið að hún myndi sækja iPadinn og líka taka myndir, var nýlega búin að læra það sú stutta.

Ég tók nokkrar myndir. Var að reyna að vanda mig og þykjast vera prófessjónal.

Vildi sýna alla litina.

Og áferðina.

Og skemmtilega iCord kanntinn.

Og reyna að vera listræn og eitthvað svona..

Barnið hermdi hugfangið eftir móður sinni bissnesskonunni og sótti það sem átti hug hennar allan þá stundina. Færði aðra þeirra í föt og lagði pent ofaná sjalið.

Það er í sjálfu sér allt í góðu að koma með barbídúkkurnar og leggja þær á sjal og svo tökum við mynd. En hvað það var sem fékk hana til að framkvæma næstu uppstillingu er eitthvað sem hún lærði ekki heima hjá sér.. what! Hehe.

Þá höfum við það. Þetta verk heitir “Þrjár barbídúkkur múna”.

Uppskrift að sjalinu fæst hér sem og allt garnið í það 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *