19 hespur í ferðatöskunni
Ég er í útlöndum. Í ferð 1 af 3 til útlanda fyrir 1.apríl í ár. Ég er yfirleitt ekki á faraldsfæti svona mikið svo þetta er hálfpartinn úr karakter fyrir mig. Ég er samt frekar hrifin af hótel lífinu, skrapp hér niður í morgunmat áðan og þegar ég kom upp var búið að búa um og fínisera.. sem var líka dálítið óþægilegt því ég hafði skilið allt eftir bara þar sem það lá, símann, tölvuna OG! garnið!!
Í farangrinum er ég með samtals 19 hespur stórar. What!?! Ég er bara að heiman fram á laugardag sko, ég er ekki með vetursetu á Spáni.
Þetta kemur til af því að ég er að prjóna peysur úr sport og aran grófleika. Sínhvor peysan.
Ég er með 6 hespur af MCN Sport (áður Merino Cash Sport) í peysuna Heavenly eftir Ankestrick.
Sæt og einföld peysa prjónuð ofanfrá og niður með eyelet munstri efst við kragann og neðst við stroff. Það eru reyndar útaukningar í henni prjónaðar í styttum umferðum („short-row“) – eitthvað sem ég hafði ekki gert áður og þurfti að hafa mig alla við að missa ekki þráðinn. Ég náði ekki að finna út taktinn í því né fatta regluna þannig að ég gæti með nokkru móti rakið upp nema alveg að byrjun ef ég myndi gera vitleysu. Ég er búin að nota rétt tæplega 3 hespur, er búin með bolinn og á ermarnar eftir sem eru alveg síðar. Býst ekki við að það fari heilar 6 hespur í alla peysuna.
Þá er ég með garn í Mon Manet peysuna, uppskrift sem kom út í Laine Magazine og ég keypti á Ravelry, með mér, 9 hespur af MCN Aran garni sem er væntanlegt í sjoppuna hjá mér.
Ég er töluvert spennt yfir þessari peysu, hún lítur út fyrir að vera svo þægileg eitthvað. Ég er strax að hugsa hvort ég eigi að gera light útgáfuna líka.. ekki viss, sjáum til.
Þar fyrir utan er ég með 4 hespur aðrar. Eina aðra MCN Aran frá Vatnsnes Yarn, í litnum Gull í mund.
Ég á afskaplega erfitt með að hafa ekkert að gera (þessi ferð er ekki beint túristaferð og mikið verður um bið og hangs fyrir mig) og þessvegna hugsaði ég með mér að ef nú skyldi vera að mér leiddist að prjóna aðrahvora peysuna sem ég er með efnivið í að ég gæti þá skellt í húfu. Ekki búin að ákveða uppskrift ennþá.
Hinar hespurnar þrjár eru, talið frá vinstri, True Merino (non-superwash 100% merínó ull), nýr ónefndur litur þarna í miðjunni og svo sennilega litur sem fer í Unique safnið á Goldie (75% merínó, 20% nylon og 5% gull stellina) garninu sem var sérpantað inn fyrir afmæli Garnbúðar Eddu núna 3.febrúar sl., átti nokkrar í afgang þegar ég var búin að lita fyrir hana.
Ég ætla ekki að mér vitandi, ennþá amk, að prjóna úr þessu annað en prufur. Það er samt mölli að ég prjóni eitthvað úr True Merino garninu fyrst það er á leið í sölu. Annars er það í góðum höndum í testi annarsstaðar.
Sem sagt þá er þetta fyrsta ferðin af þremur til útlanda hér fyrir 1.apríl í ár. Eftir mánuð kem ég aftur hingað og svo fer ég á EYF! (Edinburgh Yarn Festival). Það verður eitthvað.
Fibre Share
Eru fleiri en ég sem taka þátt í Fibre Share núna? Ég ákvað að prufa. Virkilega skemmtilegt og vinalegt. Ég skráði mig til þess að vera með í sjálfu gjafaferlinu, þ.e ég gef þeim sem ég var pöruð við og fæ gjöf frá öðrum, ekki sama aðilanum samt.
Og svo er Vatnsnes Yarn líka ein af þeim garnbúðum sem bjóða afslátt frá 4.febrúar og til og með 28.febrúar, 15% með kóðanum:
SHAREYARNMAKEFRIENDS
-allir geta notað kóðann.
Það kann síðan að vera að í ferðatöskunni séu líka 12 minihespur uppundnar. Þær eru þarna ef nú ske kynni að ég myndi ekki halda mig við að prjóna Heavenly peysuna, Mon Manet peysuna eða húfuna úr Gull í mund á MCN Aran – mini-hespurnar koma reyndar með mér eiginlega útum allar trissur, ég er að prjóna úr þeim litaprufur fyrir þennan vef. Ég er í augnablikinu með yfir 80 liti, ég er búin með 24 prufur.. En mér finnst bæði gott að sjá hespu og dæmi um hvernig hún prjónast þegar ég versla garn og þessvegna er ég að að þessu.