
Óvenjulegir tímar
Forsíða » Óvenjulegir tímar

- Blogg
Óvenjulegir tímar
- Höfundur: Kristín
Það eru sannarlega óvenjulegir dagar um þessar mundir. Þjóðfélagið á fullu að undirbúa sig og aðlaga sig eins hratt og hægt er að samkomubanni sem víða mun hafa stórkostleg áhrif. Hvað getur einhver handlitari útá landi gert í málinu ? – kannski lítið, en ég hef þó ákveðið að gera breytingar á sendingarverðinu. Hingað til hefur verið dýrara að fá sent heim heldur en að fá sent á pósthús, hefur kostað 500kr að fá sent á pósthús en 1100kr að fá sent heim, pöntun sem vó 500g eða minna, aðrir verðflokkar voru í gildi fyrir þyngri pantanir. Frá og með núna kostar hvorttveggja 500kr, sending á pósthús og heimsending, gildir einu hve þung pöntunin er. Þetta er auðvitað háð þeim svæðum þar sem Íslandspóstur býður uppá þessa þjónustu.
Þar fyrir utan hef ég afnumið sendingargjaldið alveg sé verslað fyrir 8000kr eða meira.
Ég er að vona að þetta komi að einhverju leiti til móts við þá sem eru heima í sóttkví eða geta að einhverju öðru leiti ekki yfirgefið heimilið nú eða vilja bara fá sent heim til sín, það má.
Sjálf hef ég verið að fá í tölvupósthólfið mitt ógrynni af tilkynningum varðandi heilbrigðisástandið í heiminum í dag og hvernig fyrirtæki og framleiðendur eru að díla við ástandið. Hér hjá mér, eins og vonandi á öllum öðrum vinnustöðum og framleiðslusvæðum, erum við að sjálfsögðu að gæta fyllsta hreinlætis í hvívetna. Kemur ekki annað til greina.
Þrátt fyrir að það séu skrýtnir dagar og maður er ekki alveg viss við hverju á að búast þá er samt eitt og annað sem má alveg leyfa sér að hlakka til og horfa til betri tíðar. Ég þreytist ekki á að nefna að það er vor. Það er kominn miður mars og það er bjart allan daginn. Þó svo að Hvammstangi sé eins og risastór sykurpúði (svo mikill snjór hérna, töluvert af húsum á kafi) þá er samt komið vor. Það má líka alveg leyfa sér að hlamma sér í sófann með prjóna- eða heklverkefnin. Sjálf hef ég keypt mér bæði snið og efni til að sauma kjól á mig sjálfa… ég hef ekki saumað mikið áður og beinlínis klæjar í puttana að byrja!
Ást og friður!
Fleiri færslur


Opið laugardaginn 15. mars 2025 frá 11 til 13
Vatnsnes Yarn bloggið
Þetta blogg er um handlitað garn, handlitun, liti, prjón, hekl og allt sem viðkemur þeirri iðju að prjóna og hekla.
Ritari er Kristín, listrænn stjórnandi og sjálfskipaður einráður hjá Vatnsnes Yarn.
Flokkar
Færslur eftir mánuði
Nýlegar færslur
Nýlega skoðaðar vörur
-
Even Flow - True Merino Aran 3.890 kr.