Ég fæ alltaf töluvert af spurningum um garnið sem ég handlita, eðlilega og algerlega velkomið. Sérstaklega þegar ég hitti fólk augliti til auglitis eins og er meira um á sumrin en veturna. Spurningarnar eru í öllum regnbogans litum og ekki úr vegi fyrir mig að tæpa aðeins á.
Hvað er í þessu garni?
Algeng spurning er hvað sé innihaldið í garninu, þ.e hvaða hráefni. Í augnablikinu er ég að lita annarsvegar merínó ull og hinsvegar Bluefaced Leicester ull (skammstafað BFL) og tvær gerðir af mohair garni.
Merínó ullina á ég annarsvegar til sem hreina afurð (True Merino), ss ekki superwash meðhöndlaða og ekki með neinu öðru í, svosem eins og silki, nælon, alpakka eða öðrum trefjum og hinsvegar sem superwash meðhöndlað garn sem dæmi með næloni í (Perfect Sock), silkiblandað (Silky Singles), merínó, kasmír, nælon blanda (MCN Sport) og svo bara merínó ull. Merínó garnið er ég með í ýmsum grófleikum.
BFL ullina, sem er hrein bresk ull, er ég með superwash meðhöndlaða með og án nælon í fingering grófleikanum og svo án nælon í DK grófleika.
Mohair garnið sem ég er með er annarsvegar mohair og silki í lace grófleika og svo mohair, silki og polyamide (svipað og nylon) í fingering/sport grófleika.
Hvaðan kemur garnið?
Þetta er mikilvæg spurning.
Önnur spurning sem algengt er að fólk spyrji er „hvaðan kemur garnið?“. Þar sem það er augljóst að garnið er ekki hin rómantíska íslenska ull, þá er ljóst að ég flyt það inn. Nokkrir hafa spurt hvort ég panti ekki garnið bara frá Kína. Það er ekki svo. Ég hef valið gaumgæfilega þá birgja sem ég versla við, þeir eru allir með náttúru-, dýra- og mannverndar sjónarmið að leiðarljósi. Ég kaupi ekki inn hvaða garn sem er enda finnst mér skipta miklu máli að þessi sjónarmið séu á hávegum höfð þegar ull sem hráefni er unnin, eða hvaða hráefni annað sem kemur af dýrum eða úr náttúrunni.
True Merino garnið, sem ég er með í tveimur grófleikum, fingering og DK, er unnið úr ull af merínó kindum sem eru í umsjá smábænda í Perú. Perú segirðu? Já, merínó kindin er alin hjá þeim fyrir m.a ullina, bara rétt eins og hér á Íslandi. Aftur, eins og á Íslandi, eru bændurnir dreifðir um landið og stóla á framleiðslu sína, er lifibrauð þeirra. Ullinni er svo safnað saman og hún flutt í spunaverksmiðjuna þar sem hún er hreinsuð, flokkuð og svo að lokum spunnin. Í spunaverksmiðjunni sem ég fæ True merino garnið frá, er lögð áhersla á menntun samfélagsins, þ.e haldin eru námskeið fyrir bændurna sem gera þeim kleift að læra nýjustu tækni og vísindi í umsjá dýranna sinna, í þeim tilgangi að rækta fram alla bestu eiginleika þeirra.
Öll önnur merínó ull sem ég lita kemur frá löndum innan Evrópu í flestum tilfellum. Hún kemur aldrei frá Ástralíu eða löndum þar sem, og nú vantar mig íslenskt orð yfir þetta, „mulesing“ er framkvæmt (er til í að vita hvað þetta er kallað ef einhver veit). Mulesing er semsagt sú aðgerð að fjarlægja skinn og ull í kringum afturendann á kindum. Það er gert til þess að koma í veg fyrir sýkingu en þetta er auðvitað argasta ofbeldi og þessvegna tek ég fram að ekkert af merínó ullinni sem ég sel er ull frá bændum sem þennan ósóma stunda.
BFL, eða Blufaced Leicester ullin er semsagt bresk og unnin af bresku kindinni, ullinni er safnað frá smábændum um allt Bretland. Sami prósess á sér stað þarna eins og við vinnslu annarar ullar, hún er hreinsuð, flokkuð og spunnin í spunaverksmiðju.
Það skiptir máli hvaðan hráefnið kemur. Það skiptir máli, þegar unnið er með afurðir af dýrum að dýrin hafi ekki þurft að þjást, að ekki hafi verið gengið á náttúruna og að þeir sem vinna við þetta vinni ekki við hættulegar aðstæður og fái alvöru laun. Það er erfitt að njóta þess að prjóna og hekla þegar þetta er ekki staðreynd um hráefnið sem maður vinnur með. Þegar við sitjum í sófanum á veturna, undir teppi með góðan þátt í sjónvarpinu, eða góða hljóðbók og jafnvel rautt í glasi eða liggjum á pallinum í sólinni á sumrin og erum að njóta þess að prjóna fallega flík, jafnvel handa ástvini, barnabarninu, eiginmanninum eða sjálfri sér, þá skiptir máli að vita að hráefnið sem við erum með í höndunum hafi verið unnið samviskusamlega gagnvart náttúru, dýrum og manneskjum frá upphafi til enda. Þessvegna finnst mér mikilvægt að þú vitir að garnið frá Vatnsnes Yarn stenst allar þessar kröfur.
Þegar það er ljóst að bændur hafa nostrað við dýrin sín, spunaverksmiðjan farið ljúfum höndum um hráefnið og ég síðan litað það af mestu alúð þá getur þú verið viss um að hráefnið sem þú ert með í höndunum sé alvöru.
Er þetta bómull?
Saklausari spurning en þessi gildishlaðna hér að ofan er hvort Soft Sock garnið sé úr bómull. Nei, ég er ekki með neitt bómullar garn á boðstólnum, kannski einhverntíma en ekki í augnablikinu. Hinsvegar er það nú bara svo að það er eitthvað svo mjúkt og áferðin er svolítið eins og á bómull en innihaldið er bara merínó ull.
Er þetta náttúrulitað?
Algeng spurning :) Ég hef ekki litað með afurðum úr náttúrunni hingað til. Það bara hefur ekki höfðað til mín ennþá. Allt garnið sem ég lita er litað með litaupplausnum sem gerðar eru fyrir dýrahár/trefjar, eru þvotta- og ljósfastir. Ss upplitast ekki við þvott eða þegar ljós skín á þá.
Superwash… eða ekki?
Þetta efni ætla ég að taka fyrir í næsta pósti ;)
Frábær grein og takk fyrir þessar upplýsingar, finnst dásamlegt að vinna með garnið frá þér og því fylgir alltaf þessi góða tilfinning að sitja og sjá flík verða til úr fallegu garni. Verð eiginlega að segja að það er unun að vinna með garnið frá þér, Og þetta segir kona sem vil helst vinna með grófari ull, en það er eitthvað við garnið þitt, áferðin, litirnir, næring fyrir sálina :)
Frábært að heyra! Þetta er einmitt markmiðið <3
Ég held að mikil breyting sé að eiga sér stað í Ástralíu í sambandi við meðferð á kindum. Allavega hef ég verið að lesa greinar um það á undanförnum árum, þannig held ég að ekki sé hægt að stimpla alla ástralska ull sem „vonda“ frekar en annarsstaðar, þó langt sé í land. Einnig var ég að lesa greinar frá Suður-Afríku þar sem verið er að kenna smábændum meðferð og beitarstjórnun svo vonandi er að verða vakning um allan heim um þessi mál.
Já vonandi er það þannig! En þangað til að þessari aðferð hefur verið útrýmt þá er merínó ull ekki keypt inn frá Ástralíu af þeim birgjum sem ég hef ákveðið að versla við. Fagna batnandi heimi! <3