Það er nýr þáttur af garnkastinu mínu á YouTube. Í honum tala ég, aftur, um superwash meðhöndlaða ull en líka hvað ég hef verið að prjóna og svona.
Uppskriftina að treflinum sem ég er að prjóna og sýni í þessum þætti er að finna hér.
Uppskriftina að sjalinu Bugða eftir Eddu Liljum á finna hér.
Hér fyrir neðan er svo handritið af því sem ég sagði um þvottekta garn, svona sirka.
Hvað er superwash meðhöndlun:
Í grunninn er það ferli sem ull fer í gegnum sem gerir það að verkum að hún þæfist ekki eða lítið og hægt er að þvo hana í vél.
Ull þæfist þegar þræðir hennar nuddast saman, festast saman.
Ferlið í stuttum máli er þannig að notuð eru efni til þess að sljóvga þræði ullarinnar og svo er notað annað efni til þess að húða ullina og þannig missir hún í raun eiginleika sinn til þess að þæfast og hægt verður að þvo hana í vél.
Náttúruleg ull vs superwash meðhöndluð ull
Fyrst: ull er alltaf náttúruleg. Efni eins og nylon, sem að öllu leiti er unnið úr kemískum efnum er ekki náttúrulegt, það er gerviefni. Annað, eins og viskós er hálf-gerviefni þar sem trefjarnar sem notaðar eru í það eru úr náttúrunni en svo þarf að nota kemísk efni til þess að klára ferlið.
Því má kannski spyrja hvort superwash meðhöndluð ull sé að öllu leyti náttúrulegt efni eða hvað. Ullin sjálf er það náttúrulega en það er ekki hægt að horfa fram hjá því að kemísk efni hafa komið við sögu.
Sjálf meðhöndlunin
Klór. Jebb. Klór. Það er stundum nóg til að hið besta fólk fái hland fyrir hjartað, að nefna klór. Klór er auðvitað notaður í framleiðslu á fjöldamörgum vörum, t.d líklegt að hann hafi verið notaður í klósettpappírinn þinn eða pappírinn sem þú notar í prentarann þinn og sem börnin þín teikna á.
Eitt sem ég komst að við rannsókn mína á þessu er að klór er ekki alltaf notaður í vökvaformi heldur einnig sem gas. Ekki almennilega neitt sem kemur málinu við fyrir utan að ég vissi það ekki og að í upplýsingunum sem ég var að skoða kom fram að klórmeðhöndlun ullarinnar var ss ekki í formi gass.
Almennt séð er aðferðin til þess að gera ull þvottekta þannig að hún er fyrst meðhöndluð með klór, það er gert til þess að gera yfirborð hennar móttækilegt fyrir resin efni sem lokar yfirborðinu aftur, í þeim tilgangi að gera ullina óþæfanlega og þar með þvottekta.
Plast og resin. Sumstaðar er talað um að ull sé plasthúðuð. Líklegt er að einhversstaðar og á fyrstu tímabilum þessarar meðferðar hafi verið notað einhverskonar plast efni (vert að bæta við að ég hef ekki hugmynd um það).
Í dag er notað resin efni sem er í míkróstærð, ss pínu lítið og sem er frekar veikburða strúktúr. Minnir á vef sem síðan binst endanlega við yfirborð ullarinnar. Plast og resin eru ekki lík að uppbyggingu.
Uppbygging resin efnisins er vatnsuppleysanleg (ekki í þvottavélinni hjá þér samt, efnið er varanlega bundið við ullina og fer ekki af). Rannsóknir sýna að þessi eiginleiki, að resin efnið sé vatnsuppleysanlegt, geri að ullin og resin efnið brotnar hratt og örugglega niður. Í afar stuttu máli þýðir þetta að resin efnið brotnar niður og orsakar ekki míkróplasts mengun, af því að það verður ekki eftir þegar ullin hefur brotnað niður.
Hercossett
Mikið er talað um Hercossett aðferðina í dag. Hercossett er heiti á klórmeðferð sem notuð er sumstaðar, með áherslu á sumstaðar. Mengunin sem á sér stað þegar Hercossett aðferðin er notuð á sér stað í vatninu sem notað er. Það er ss ekki ógeð á garninu sjálfu. Í Evrópu eru í dag mjög háir standardar hvað varðar hreinsun á affalls vatni. Það gæti verið vegvísir fyrir þig að skoða hvar garnið sem þú kaupir er meðhöndlað.
Það er kannski erfitt að fá upplýsingar um það. Eitt mælitæki sem hægt er að nota eru vottanir.
Vottanir
Sem dæmi er garnið sem ég lita undir merkjum Vatnsnes Yarn, sem er sw meðhöndlað, meðhöndlað á náttúruvænan máta með eftirfarandi vottunum EU Flower (sem er sama og Svansmerkið hér og á norðurlöndunum) og OEKO-TEX 100. Hið síðarnefnda vottar að hvergi í ferlinu hafa skaðleg efni verið notuð við framleiðsluna. Einn galli, sem er stór og mjög mikilvægur að hafa í huga, er að það eru ekki allir sem hafa efni á eða tækifæri til að fá þessar vottanir. Þær eru dýrar og afar litlar líkur á því að smábændur hafi sömu tækifæri og stór fyrirtæki í þessum efnum. Sem í sjálfu sér útilokar stóran hluta frá markaðnum. Smábændur eru mun líklegri til þess að eiga gott samband við sína hjörð og minni fyrirtæki eiga meira undir en stór og eru líklegri til þess að vanda sig og framleiða betri vörur.
Að mynda sér skoðun
Það er krúsjal fyrir alla að mynda sér upplýsta skoðun, á bara öllu. Það er varasamt að halda því fram að greinin sem þú finnur efst á google hafi meira sannleiksgildi en aðrar greinar. Það sem er efst á google er þar fyrir tilstilli algórithma sem notar óteljandi kræteríur til þess að ákvveða hvað er eftst. Sem dæmi er aldur efnis og hversu vel það er hlaðið af fyrirframskilgreindum leitarfrösum, en það vegur frekar þungt er líklegt til þess að koma grein efst eða ofarlega á google. Það þýðir í sinni einföldustu mynd að það sem er efst gætu þessvegna verið gamlar upplýsingar.
Þar fyrir utan er nauðsynlegt að stilla hlutunum svolítið upp. Kostir og gallar og svona.
Kostir superwash meðhöndlaðrar ullar eru ótvírætt þeir að það er hægt að þvo hana í vél og hún þæfist ekki. Hún tekur lit betur. Nú erum við ekki bara að tala um fyrir handlitara, heldur einnig fyrir litun á bandi sem fer fram í verksmiðjum.
Gallar
Það er aðallega aðferðin við meðferðina í gegnum tíðina.
Mýtur
„Sw ull er ekki hlý“: það er vitleysa
„Það er erfitt að lita sw ull“: einnig vitleysa
„Sw ull er plasthúðuð“: einfaldlega ekki satt
„Þú ert föðurlandssvikari og traðkar á móður jörð ef þú notar sw ull“: heldur ekki satt
Annað sem vert er að veita athygli þegar maður vegur og metur hvort manni finnst í lagi að nota sw meðhöndlaða ull:
Í sjálfu sér er göfug iðja að búa sér til föt. Handa sér, börnum, öðrum, skiptir kannski ekki. Það er ekki hægt að hugsa um prjónaskap bara sem áhugamál sem engann ávinning ber. Dæmi um ávinning í stóra samhenginu er að þessi iðja jafnar út hraðtísku og fjöldaframleidd föt – eina lykkju í einu.
Áður en maður tekur ákvörðun um að úthúða þeim sem nota sw meðhöndlaða ull mætti skoða eigin neyslu: er ég að kaupa fjöldaframleidd föt, föt sem jafnvel gætu verið framleidd af börnum, föt sem duga stutt, kaupi ég of mikið af fötum, mat.. hlutum ?
Niðurstaða
Þar sem þær litlu rannsóknir sem gerðar hafa verið, benda til og sýna að superwash meðhöndluð ull brotni niður í náttúrunni og að ekki er um að ræða míkróplast mengun þá er mín niðurstaða að mér finnst í lagi að nota þvottekta ull. Ég tel ávinninginn af því að búa til flíkur úr þvottekta garni, eina af annarri, mikilvægara skref í áttina að minni sóun og almennu réttlæti á vinnumarkaðnum í heiminum, heldur en áhrifin sem superwash meðhöndlunin sjálf hefur á náttúruna. Vegna þess að ef að er gáð, þá eru þau fyrir nokkurri tíð síðan orðin mikið minni en var. Sbr. affallsvatnið sem er hreinsað svo rækilega að það er hreinna en kranavatn í landi sem er ekki langt frá okkur.