Fréttir

Undirbúningur fyrir garnhátíð

Garnival er á næsta leiti, eða bara núna næsta sunnudag, 3. mars 2024 í samkomusal Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði. Datt í hug að setja hér inn smá lista yfir praktíska hluti sem geta kannski hjálpað þér við að framkvæma góð garnkaup. Bara svona þumalputtareglur.

Almennt um garn

  • Í daglegu tali eru orðin; lace, fingering, sport, DK, worsted, aran og bulky notuð um grófleika garns. Það eru líka til íslensk orð yfir grófleika garns; fisband, fínband, léttband, þykkband.
  • Garn í fingering grófleika er oftast fyrir prjóna 2.25mm – 3.5mm.
  • Í 100g af fingering garni er algengt að séu frá 360 – 425m eða 180 – 212m á 50g hespu/dokku/hnotu.
  • Fingering & Sock. Munurinn á garni í fingering grófleika (sem þú getur einkennt á t.d metrafjölda í 100g eða skráðri prjónastærð) sem heitir eitthvað fingering eða eitthvað sock (eins og hjá mér, Merino Fingering og Merino Nylon Sock) er að í garni sem heitir „…sock“ er nylon eða einhver styrking og þessvegna hentar það vel í sokka. Sokkagarn, sem er merkt „…sock“ er líka að finna í öðrum grófleikum.
  • Garn í DK grófleika er oftast fyrir prjóna 3mm/3.5mm – 4.5mm
  • Í 100g af DK garni er algengt að séu frá 210 – 225m eða 100 – 112m á 50g hespu/dokku/hnotu.
  • Lace garn (fínband) er mjög fíngert og eru allt frá 800 til 1200m á 100g af lace garni. Það hefur verið vinsælt síðustu misserin að nota mohair í lace grófleika með öðru garni, ss prjóna úr tveimur þráðum samtímis. Áferðar-áherslumunurinn sem myndast þegar lace garn er notað á móti garni í öðrum grófleika verður mjög skemmtilegur í prjónlesi.

Hve mikið garn ?

  • Úr einni 100g hespu af garni í fingering grófleika, sem er styrkt (með nyloni t.d) má hæglega gera sokkapar á fullorðna manneskju. Jafnvel ná tveimur pörum, eitt par á kvenmann og eitt par á barn. Eða tvö pör með stuttu stroffi.
  • Kaup á tveimur 100g hespum af garni í fingering grófleika henta vel í sjal sem þú veist ekki ennþá að þú ætlar að prjóna. Það geta verið tvær eins hespur eða tvær í sínhvorum litnum.
  • Ein 100g hespa af garni í DK grófleika dugar í eitt sokkapar/vettlinga/ eina til tvær húfur/mörg eyrnabönd.
  • Hve mikið garn í peysu – hér er listi yfir áætlað garnmagn í peysuprjón m.v hvort um ræðir peysu á barn, konu eða karl og eftir grófleika.

Superwash og ekki superwash – nokkur lykilatriði

  • Þú ræður hvort þú notar superwash meðhöndlað garn eða ekki
  • Það sem skiptir máli, þegar þú ákveður að nota superwash meðhöndlað garn er að vita hvort meðhöndlunin er framkvæmd á eins náttúruvænan máta og hægt er. Vottanir eins og OKOtex ættu að gefa þér góða mynd. Ef þú ert að versla handlitað garn þá ættir þú að geta spurt litarann hver uppruni garnsins er og hvernig það er unnið. Sem dæmi er allt superwash meðhöndlað garn sem framleitt er af Vatnsnes Yarn, meðhöndlað í vinnslu sem ber OKOtex vottunina.
  • Í minni reynslu, þá er superwash meðhöndluð merinó ull mýkri og loftkenndari. Eða hvort ég á að nota orðið linari. Ég geri ráð fyrir að það sem ég prjóna úr sw merinó ull muni stækka þegar ég þvæ það.
  • Ómeðhöndluð merinó ull er mun þéttari í sér og ég geri ekki ráð fyrir að hún stækki eins mikið og sw ullin. Ómeðhöndlaða ullin skreppur saman ef hún er þvegin í vél (fer eftir vélum hvort handþvottahringur sé nógu nærgætinn) og getur vel þófnað ef hún er þvegin með of miklu offorsi í höndunum eða úr of heitu vatni.
Eitt sem ég hef tekið eftir þegar ég afgreiði garn er að í stórum dráttum er kaupandinn annaðhvort mjög undirbúinn og veit í hvað er verið að kaupa, eða hann er (eins og ég) með öllu óundirbúinn og laðast frekar að því að kaupa garn fyrst og finna því verkefni seinna. Ég tel báðar aðferðir fullkomnar! Ef hinsvegar þú ert með eitthvað ákveðið í huga, gæti verið gott, að vera búin að skoða uppskriftina og skrifa ef til vill hjá sér eftirfarandi:
  • Nafn uppskriftar og hvar hana er að finna (Ravelry, vefsíðu, á miða í veskinu þínu)
  • Valin stærð
  • Uppgefið garn (svo hægt sé að fletta því upp ef það á að kaupa annað en uppgefið garn)
  • Metrafjöldi á grömm í uppgefnu garni (hjálpar til að reikna út hve mikið þarf af öðru garni en gefið er upp)
  • Uppgefin prjónastærð (hjálpar til að reikna út hve mikið þarf af öðru garni en gefið er upp)
  • Ef þú ætlar að kaupa handlitað garn, að kaupa nóg í verkefnið. Það er ekki víst að það verði hægt að fá litinn aftur og svo má gera ráð fyrir að það komi fram litamismunur ef þú endar með að þurfa að kaupa aukalega. Það er alltaf hægt að skella í húfu í stíl 😉

1 thoughts on “Undirbúningur fyrir garnhátíð

  1. Pálína Tómasdóttir skrifar:

    Elsku hjartans Kristín mín skemmtilega. Ætla að prjóna e
    Fallegt!!!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *