Blogg

Uppskriftir

Mér sýnist að íslenskir prjóna- og heklhönnuðir hafi verið að spretta upp eins og gorkúlur núna undanfarið. Því fagna ég og er komin með til sölu uppskriftir eftir íslenska hönnuði hér á www.vatnsnesyarn.is. Í augnablikinu eru það Edda Lilja og Arndís Arnalds sem ég er með uppskriftir eftir, en þær hafa báðar verið duglegar að nota Vatnsnes Yarn sem efnivið í hönnun sína. Ég er alltaf til í samstarf við hönnuði, ef þú hefur áhuga, sendu mér þá línu 🙂

Lífið þeytist framhjá óvenju hratt þessa dagana. Við munum óvænt flytja okkur um set seinna í þessum mánuði og leita ég logandi ljósi að vinnustofuplássi… á Hvammstanga, erum að flytja þangað frá Reykjaskóla þar sem við höfum verið síðustu 2 árin vegna vinnu eiginmannsins. Það yrði vissulega gott að komast í aðeins stærra stúdíó heldur en þessa 6m2 sem ég hef verið í og bara nokkuð spennandi að hugsa til þess að komast í „alvöru“ vinnustofu á móti þvottahúsinu heima hjá sér. Hugsa líka að bæði eiginmaður og börn verði hrifin af því að hafa ekki garn hangandi til þerris, merkinga og pökkunar útum allt hús. Þið vitið, fyrir utan allt garnið sem umlykur „mitt svæði“ í sófanum.

Annað sem fer alveg að bresta á er að við opnum í Skrúðvangi á Laugarbakka. Núna er ég að tala um gróðurhúsin sem við keyptum í fyrra haust eftir að hafa leigt þau yfir sumarið og ræktað þar jarðarber. Þar erum við á fullu að taka til, gera upp og rækta plöntur og munum svo opna þar 1.júní n.k. Þar verður Vatnsnes Yarn til sölu og því ekki úr vegi að finna Laugarbakka á Google maps og koma við á ferðalaginu í sumar 🙂

Sjáumst!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *