Blogg

Garngangan 2018 og aðventudagatal

Garngangan 2018, VÁ! Meirihátta gaman, svakalega mikið af fólki. Ég var með Vatnsnes Yarn pop-up búð í Ömmu mús, alveg ómetanlegt að hitta viðskiptavininn svona fés tú fés þegar maður ekki bara býr úti á landi og tilveran er mikið til á internetinu.

Amma mús selur frá mér Soft Sock garnið sem er 100% merínó ull, fingering grófleiki, vinsælt í sjöl og ég sé alltaf fleiri og fleiri barnaföt gerð úr því. Það glittir í það á veggnum hjá þeim á myndinni hér fyrir ofan. Ég kom svo með Perfect Sock, sem er 80% merínóull og 20% nælon í nokkrum litum, einnig kom ég með smá Kid Mohair Lace – sem svoleiðis rann út.

Spenntust var ég fyrir að forsýna nýja línu frá mér sem heitir „The Quiet Collection“. The Quiet Collection samanstendur af, til að byrja með, 8 nýjum litum sem allir eiga það sameiginlegt að vera litir sem hafa ekki mikil læti en hafa áhrif engu að síður. Fékk lánað þennan forláta stand til þess að hengja nýju línuna upp á, kom bara vel út.

„The Quiet Collection“

Ég ætlaði að taka fleiri myndir en búðin fylltist af fólki og var full til lokunar, svo ég náði ekki að taka fleiri myndir. Þetta er restin af nýju línunni:

Það sem ég geri núna með þessa línu er að lita hana uppá nýtt og frumsýni (ok.. það mætti halda að ég sé að fara að gefa út bíómynd.. ) svo hér á vefnum hjá mér og á samfélagsmiðlum.

Ég var líka með aðventudagatalið mitt meðferðis, það var einskonar for-forsýning :). Það er byggt upp aðeins öðruvísi heldur en hefðbundin jóladagatöl. Þegar við bjuggum úti kom í ljós að daninn gefur ekki krökkum í skóinn heldur gefur þeim svokallaðar aðventugjafir. Þetta fannst mér skemmtileg hefð og við gerum þetta hér heima (fyrir eldri krakkana, þau eru að detta í 13, 16 og 18 ára) í staðinn fyrir að gefa í skóinn og súkkulaði-dagatal. Sú 5 ára fær í skóinn samt 😉

Allavegana, þá er aðventudagatalið frá Vatnsnes Yarn, með áherslu á aðventu, byggt þannig upp að í því er uppskrift að sjali og garnið í það, meira garn og svo eitt og annað leyndarmál. Á hverjum aðventusunnudegi opnar þú pakka með hluta af uppskriftinni og garnið í þann hluta, meira garn sem þú getur nýtt í eitthvað annað og svo eitt og annað sem er bæði geggjað og æðislegt en líka algjört leyndó, þetta er jú dagatal.

Aðventudagatalið verður sett hér á vefinn í vikunni til forpöntunar, það verður afhent um miðjan nóvember.

Á prjónunum

Á prjónunum er ennþá garngönguhúfan (..ennþá)! Ég er að prjóna hana úr Superwash DK garninu mínu og er alveg að fíla það í ræmur. Keypti bæði bleikan og húrrandi rauðan dúsk í Gallerý spuna um daginn og ætla mér að setja hann uppá topp þegar ég er búin að klára.

Er reyndar með prufuprjón í gangi líka, barnastærð af sokkum, þarf að klára þá fyrst.

Hlakka til að sýna ykkur dagatalið fullklárað 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *