Þessir litir komu úr pottunum í síðustu viku. Þennan græna hallast ég að að kalla Olive, guli á að heita Lemon Curd og svo vantar mig nafn á þennan GEGGJAÐA fljólubleika. Vá, og garnið, það er í grófleikanum „lace“ og er undurmjúk blanda af merínó ull, silki og kasmír.

Að íslensku orðunum yfir prjón

Ég er mjög vel læs á prjón, hekl og garn á ensku og norðurlandamálunum. Svo vel læs að mér finnst stundum erfitt að finna rétt íslensk orð yfir hitt og þetta sem við kemur prjóni, garni og litun garns. Ekki svo að skilja að ég noti aldrei íslenskar uppskriftir, langt í frá, ég hef bara búið erlendis stærstan hluta síðustu 10 ára og finnst þessvega ekkert tiltökumál að nota erlendar uppskriftir.

Eru þessi orð til?

Getur verið að íslenska handavinnumálið sé ennþá frekar ungt, eða of tengt því að hér hefur lengst af bara verið til íslensk ull og öll orðin sem eru til tengjast því hráefni?

Ég veit reyndar til þess að það er verið að vinna í að þýða hin og þessi orð, t.d hve margra þráða garn er, þú veist, allt þetta með hve mörg „ply“ garn er. Mér finnst eðlilegast að tala um einband fyrir band sem er bara einn þráður (1ply) og tvíband fyrir band sem er snúið saman úr tveimur þráðum (2ply) og í framhaldi af því finndist mér eðlilegast að tala um þríband, fjórband, fimmband, en er ekki viss um að íslenskan sé sammála mér í því.

Sama gildir um grófleika garns, sem á ensku er talað um sem „weight“ en ég get ekki fengið af mér að nota orðið þyngd um það. Hvað væri t.d æskilegast að tala um þegar garn er af „fingering“ grófleika? Eða „worsted“.. DK, lace ? Ég ætla að bíða þar til það eru komin samþykkt íslensk orð yfir grófleika garns og halda þessu á ensku þangað til þá.

Einnig er ég í „vandræðum“ með að þýða orð yfir litatækni eins og „speckled“  og „tonal“ og „semi solid“ –  ég læt þetta einnig standa á ensku í bili. Eina sem mér hefur dottið í hug varðandi að þýða þessi orð er að nota orðið „freknótt“ fyrir „speckled“. Speckled garn er með mjög áberandi lita doppum, í mismunandi stærðum, sem dreift er af handahófi yfir garnið. Freknur eru þannig, svo ég er að íhuga að kalla garn sem ég lita með þessum hætti sem freknótt garn.

Það er Kristín sem ritar - lýsandi stikkorð:

handlitari + vefhönnuður + útgefandi // listrænn stjórnandi + fjölástríðufullur prjónari // þverflautuleikari + tilfallandi klúðrari // fylgjumst að á Insta @vatnsnesyarn.kristin

Leave A Comment

Fleiri bloggpóstar