Jólalitir og Tweed DK
Þessa dagana er ég að prjóna No Frills peysuna úr Tweed DK garninu frá Vatnsnes Yarn í litnum Að vera eða ekki. Langaði (aftur..) í peysu sem er svolítið í yfirstærð fyrir mig og grunar að þessi verði akkúrat þannig. Hlakka töluvert mikið til þegar hún er tilbúin, enda aðeins farið að ýja að því að bráðum muni kólna hér í norðurlandinu. Það er búið að vera alveg stjörnugott veður reyndar undanfarið en það eru árleg teikn á lofti um að nú sé þessu bráðum lokið, þá á ég við sumarið. Ég komin með lista yfir verkefni sem ég vil að séu búin í garðinum og svona, mála þakkassann (sem er reyndar búið, yay!) og gluggana, undirbúa matjurtabeð með mold og moltu fyrir næsta vor og gera allar tilfæringar á lóðinni sem síðan verður ekki hægt að gera meðan það er vetur.
Þetta er náttúrulega ákveðin haust-hreiðrun ef svo má að orði komast, klára stöff, uppskera og gera sér hlý föt fyrir veturinn.. og hugsa um jólagjafir.. og það er ennþá ágúst… WHAT!