Aftur ætla ég að endurvinna gamla pistla, þessi pistill birtist fyrst á persónulega blogginu mínu árið 2015. Þetta er kafli 1 af tveimur. Hafði hugsað mér að gera síðan fleiri og hér kemur þá pistillinn eins og hann birtist (nánast) hér um árið:
Litafræði kafli 1
Bíddu… er það að raða saman litum þegar prjónað skal eða heklað eitthvað sem örfáir útvaldir hafa sem meðfæddan hæfileika og við hin erum alveg bara í angistarkasti í garnbúðinni og hefðum sennilega frekar getað farið með öll erindi þjóðsöngsins, án þess að hika, heldur en valið t.d þriðja litinn við þessa tvo sem búið var að velja?
Nei vinir mínir, það er að sjálfsögðu ekki þannig. Viðurkennt skal þó að sumir hafa einstaklega gott auga fyrir litasamsetningu og í besta falli getum við hin lært af þeim, það er bara af hinu góða.
Það er hinsvegar hægt að kynna sér aðeins litafræði og nota þá vitneskju þegar litir eru settir saman. Þessvegna ætla ég aðeins að tæpa á litafræðinni. Ég ætla að tæpa, í mjög stuttu máli, á grunnatriðum litafræðinnar og svo hvernig má nýta þá vitneskju þegar litir eru valdir saman og svo hvernig má heimfæra valið yfir í garn.
Litahjólið og blöndun lita = einföld fræði
Það sem margir, jafnvel flestir, þekkja eða hafa amk séð er hið klassíska litahjól.
Frumlitirnir eru gulur, rauður og blár. Þá er ekki hægt að blanda úr öðrum litum. Með frumlitunum og svörtum og hvítum er hægt að blanda alla liti. Annars stigs litir eru þeir litir sem eru blandaðir úr tveimur frumlitum, eins og grænn, appelsínugulur og fjólublár (annarsstigs litir).
Og svo, ef við tækjum uppá því að blanda t.d frumlit og lit sem er annarsstigs, þá fengjum við þriðjastigs liti, sem eru t.d grængulur, bláfjólublár, rauðfjólublár og gulappelsínugulur.
Litir geta síðan verið heitir og kaldir.
Litatónn, gildi og hreinleiki = aðeins flóknari fræði (en ekki fara! þetta mun meika sens!)
Hvað koma orðin hreinleiki og gildi því við í hvaða litum við ætlum að prjóna næstu lopapeysu? Þetta hefur allt tilgang, ég reyni að hafa þetta eins skýrt og í eins stuttu máli og hægt er.
Litatónn. Fyrsta vídd lita, er litatónninn, þessi sem við sjáum á litahjólinu hér að ofan. T.d grænn eða fjólublár. Fræðin segja að það sé endalaust magn af litatónum, þeir blandist saman á endalaust marga vegu. Sjaldnast erum við að leita að bara brúnum. Við erum að leita að brúnum í einhverjum sérstökum tón. Ljósbrúnum, dökkbrúnum, heitum brúnum, köldum brúnum, súkkulaðibrúnum og svo framvegis.
Þar koma næstu tvær víddir lita inn.
Gildi litatóns getur verið dökkt eða ljóst. Ef ég myndi ætla að blanda dökk gulan myndi ég bæta svörtum við gula litinn og ef ég ætlaði að blanda ljósgulan myndi ég bæta hvítum útí.
Útlit litarins breytist eftir því hve mikið af hvítum eða svörtum er blandað útí hann.
Pastel litir hafa hátt gildi en dökkir litir hafa lágt gildi. Litir blandaðir með hvítum eru gjarnan flokkaðir sem „vorlitir“ (og pastellitir), litir blandaðir með svörtu eru gjarnan flokkaðir sem haustlitir.
Hreinleiki lita fer eftir því hvort það er ríkulegt magn af lit eða hvort það er lítið. Þegar ég lita garn og vil hafa litinn mjög djúpan, þá nota ég meira af litablöndu heldur en ef ég vil hafa garnið mjög ljóst, þá nota ég mjög lítið. Hér erum við að tala um magn litablöndu á móti þyngd garns, en ef ég yfirfæri þetta á vatnsliti þá myndi þetta vera magn af lit á móti vatni, því meira vatn, því ljósari litur en samt af sama litnum, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan að rauður verður bleik-grár (á móti því að þegar gildið er hátt eða lágt þá í dæminu að ofan varð ljósljósgulur að dekkri grænum).
Hreinustu litirnir geta verið bjartir og tærir. Minna hreinir litir eru þeir sem kallast grátóna litir, og á endanum bara gráir litir. Í garni útleggst þetta sem djúpir og ríkir litir og svo útí ljóst og ljós, ljóst garn, í sama lit.
Til þess að halda okkur á tánum:
Litum er skipt í frumliti, annars stigs liti og þriðja stigs liti. Litir geta verið heitir og kaldir. Litir hafa þrjár víddir, litatón (liturinn sem við sjáum), gildi (ljós eða dökkur) og hreinleika (dökk/björt eða ljós/grá útgáfa af sama lit).
Og hvernig á svo að velja saman liti?
Reyndar verð ég fyrst að taka fram að það er ekkert til sem heitir „á“ að gera þegar litir eru valdir saman, þetta er alltaf smekksatriði, en fræðin geta samt hjálpað okkur að komast að upplýstri niðurstöðu.
Litum er gjarnan skipt upp í þessa flokka og hver þeirra hefur mismunandi áhrif
Einlita litaþema (monochromatic): Einlita litaþema inniheldur sama litinn í mismunandi afbrigðum. Einlita litaþema er einfalt, öruggt og einkennist af naumhyggju (minimalistic).
Hliðstætt litaþema (analogous): Hliðstætt litaþema inniheldur liti sem sitja við hliðina á hvorum öðrum á litahjólinu.
Andstæðir litir (complementary): Andstæðir litir eru litir sem sitja á móti hvorum öðrum á litahjólinu. Gulur er á móti fjólubláum, blár á móti appelsínugulum og rauður á móti grænum. Andstæðir litir auka spennu og skapa líf um leið og þeir styrkja og skýra hvern annan.
Þrískipt litaþema (triadic): Þrískipt litaþema er búið til með því að nota þrjá liti, sem dreift hefur verið með jöfnu millibili um litahjólið. Á myndinni hér fyrir neðan mætti t.d taka frá bláu litina og nota græna, bleika og vínrauða eða fjarlægja græna og ljósari bláa litinn og nota vínrauðan, bleikan og bláan.
Andstæðu litaþema (compound): Andstæðu litaþema felur í sér að valdir eru tveir litir hlið við hlið og svo aðrir tveir sem eru beint á móti á litahjólinu. Þessi flokkur gefur fleiri möguleika að velja saman andstæðu liti heldur en flokkurinn „Andstæðir litir“ en nýtir samt sömu eiginleika, að skapa líf og spennu.
Á litadæmunum hér að ofan er aðalliturinn alltaf sá sami, þessi dökkvínrauði alveg til vinstri. Hinir litirnir koma fram eftir því úr hvaða flokki þeir eru valdir.
Kíktu á þetta tól frá Adobe. Þar er hægt að velja aðallit (t.d þennan sem á að vera ríkjandi í næsta verkefni hjá þér) og skoða svo hvaða litir passa vel við hann eftir því í hvaða litaflokkur er valinn (sbr. flokkarnir hér að ofan). Ég setti ensku orðin í sviga hér að ofan til að auðvelda þér ef þú vilt kíkja á þetta tól.