Gott að vita

Hve mikið garn?

Ég veit ekki með þig en ég hef oft lent í því að vera ekki með skrifað í fallega minnisbók með fallegri og alls ekki óreglulegri rithönd allt sem mig langar að prjóna og hekla og hvernig garn á að fara í það og hve mikið. Ég er reyndar ekki heldur með upplýsingar um hvaða prenthylki eiga að fara í prentarann minn.. eða hvernig pera er í öllum lömpum heimilisins sem er auðvitað ástæðan fyrir því að ekkert verður prentað og það er allt í myrkri hjá mér.. og finnst mun betri hefð í Danmörku að allir eiga að vera með svokallað „heilsugæslukort“ á sér en á því stendur t.d kennitalan þín (og heimilisfang og læknisupplýsingar – hentugt ef þú liggur einhversstaðar ófær um að tjá þig), ekki svo að skilja að ég muni ekki mína eigin kennitölu en það var sannarlega þægilegt að hafa kort barnanna minna við höndina í veskinu þegar ég þurfti að reiða þær upplýsingar fram, þau eru eftir allt fjögur og aldeilis nóg um númer sem kona þarf að leggja á sig að muna.

Sjal sem ég prjónaði úr SweetGeorgia, Tough Love Sock.

Aftur að þeirri staðreynd að ég er ekki með skrifaðan lista yfir það sem mig langar að prjóna, reyndar hef ég í gegnum tíðina meira verið að ákveða að mig langi í peysu eða sjal og fer þá og finn uppskrift að peysu eða sjali, það sem ég er að meina með öllu þessu er að þegar svo ég lendi í því að vera í garnbúð og sé eitthvað garn sem mér líst vel á þá væri ég alveg til í að vita allavegana svona sirka hversu mikið af því garni ég mögulega gæti þurft í t.d peysu, nú eða hvað annað sem mér finnst garnið kalla á.

Annað sjal sem ég prjónaði úr SweetGeorgia, Merino Silk Fine

Í svona óráði í garnbúðinni, hálf sveitt og mögulega með nett öran hjartslátt, því eiginlega hafði ég ekki tíma til að fara inní garnbúðina, eiginlega vitandi að það myndi taka mig ár og daga að velja eitthvað, og eiginlega útaf því að ég var á leiðinni eitthvað allt annað (mögulega átti ég ekki einusinni leið um hverfið), það stjórnar þessu einhver innri (garn-) hvöt sem ég hef greinilega ekki í ól og taumi, þá gæti verið gott að vita hversu mikið garn, amk svona sirka, þyrfti í hitt og þetta.

Það er útaf þessu sem ég er búin að taka saman hvað þarf mikið garn í hitt og þetta í barnastærðum og fullorðinsstærðum. Auðvitað er þetta bara til viðmiðunar og betra er of en van í garnheimum. Kannski stækka ég listann við tækifæri en hér er komið fyrir húfu, trefil, peysu og teppi. Flest fyrir heklað og prjónað, það er autt þar sem ég fann ekki áreiðanlegar upplýsingar um magn.

PRJÓN HEKL
HÚFA
(mál: ummál höfuðs)
Barna
(40-48cm)
Fullorðins
(53 – 58cm)
Barna
(40-48cm)
Fullorðins
(53 – 58cm)
–Sock – Fingering 100 – 170m 200 – 240m
–Sport – DK 100 – 140m 170 – 200m
–Worsted 65 – 85m 100 – 160m
— Bulky ca 85m ca 110m
TREFILL Barna
(15 x 100cm)
Fullorðins
(20 – 140 cm)
Barna
(15 x 100cm)
Fullorðins
(20 – 140 cm)
–Sock – Fingering 3650m 600m 530m 790m
–Sport – DK 350m 600m 420m 770m
–Worsted 170m 350m 225m 455m
— Bulky 115m 230m 150m 300m
SJAL Vænghaf um 155cm – hæð um 60cm
–Sock – Fingering 750m
–Sport – DK 650m
–Worsted 550m
— Bulky
PEYSA
(mál yfir brjóstk.)
Barna
(60-70-80cm)
Fullorðins
(92-102-112-122 cm)
Barna
(60-70-80cm)
Fullorðins
(92-102-112-122 cm)
–Sock – Fingering 690-920-1330 m 1700-1920-2300-2500 m 620-1200-1730 m 2150-2500-3000-3200 m
–Sport – DK 500-730-1000 m 1300-1500-1750-1920 m 660-950-1310 m 1700-1900-2300-2500 m
–Worsted 460-590-920 m 1100-1300-1500-1700 m 600-780-1200 m 1430-1700-1900-2200 m
— Bulky 320-460-640 m 850-920-1100-1200 m 330-600-840 m 1100-1200-1430-1550 m
TEPPI (afghan) Barna
(50 x 80 cm)
Fullorðins
(150 x 150 cm)
Barna
(50 x 80 cm)
Fullorðins
(150 x 150 cm)
–Lace – Sock – Fingering 1240 m 3200 m 1610 m 4150 m
–Sport – DK 1050 m 2700 m 1400 m 3500 m
–Worsted 920 m 2450 m 1200 m 3200 m
–Bulky 780 m 1720 m 1010 m 2300 m

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *