Ég er ný flutt frá Kaupmannahöfn. Ákvað, ásamt fjöllunni auðvitað, að flytja í norðurland vestra. Eiginmaðurinn er þaðan og ég flutti þangað fyrst að mig minnir árið 1994, fór svo í skóla, kom svo aftur, flutti svo til Köben, þar sem ég hef verið síðustu 10 árin. Staðurinn sem um ræðir er Húnaþing vestra, en við búum rétt fyrir utan Hvammstanga sem er þéttbýlið í sveitarfélaginu.

Margir hafa spurt mig hvort það hafi ekki verið mikil viðbrigði, að koma úr svona stórborg og beint útí móa. Ef ég tala bara fyrir sjálfa mig þá er svarið nei. Fyrir mig var þetta eins og heimsins eðlilegasta næsta skref í mínu lífi. Ég elska að vera hér. Í sveitinni. Fór í banka, pósthús og búð áðan og það tók innan við 10 mínutur. Öll þessi þjónusta sirka 20 skrefum frá skrifstofunni minni þar sem ég starfa sem vefhönnuður.

Flutningum almennt séð fylgir mikið rask, svo ég tali nú ekki um millilandaflutninga og þó svo að nú sé kominn rétt rúmlega mánuður síðan við komum, þá er allt ennþá í algjörri steik heima, kassar hér og þar og vinna allan daginn og tíminn til að prjóna hefur verið akkúrat enginn.

Á prjónunum mínum hanga tvær ókláraðar lopapeysur, tvö sjöl, ullarsokkar og fleira. Prjónakonan inní mér er verulega vanrækt. Verst er að sjá ekki almennilega frammúr hvenær þetta mun breytast. Ég er að ímynda mér að þegar allt norðanrokið og dimmu kvöldin eru mætt á svæðið að ég muni leita meira uppí sófa heldur en útí garð að moka (óendanleg órækt í garðinum) á kvöldin og grípi þá í prjónana.

Nýji liturinn

Mig langar að kynna nýjan lit. Hann er hannaður einmitt með staðsetningu mína og norðanrokið í huga. Hann ber nafnið „Norðvestur“. Hann er í grunninn ljós en sprengdur (speckled) með nokkrum velvöldum.

Eigum við að ræða aðeins aftur þetta með þýðinguna á enska orðinu „speckled“ ? Já, ok, gerum það svolítið. Fyrst hafði mér dottið í hug að kalla þessa litaaðferð „freknótt“ en svo mágkona mín kom í heimsókn um helgina og sagði eitthvað á þá leið að garnið væri síðan svona sprengt. Þá er ég að velta fyrir mér hvor sprengt sé í raun og veru meira réttnefni heldur en freknótt?

Nýja litinn er hægt að skoða hér.

Í augnablikinu hef ég bara prufað að lita hann á Perfect Sock, þér er alveg óhætt að vera í bandi ef þig langar að fá hann á einhverri annarri garntegund sem ég er með.

 

 

 

 

Það er Kristín sem ritar - lýsandi stikkorð:

handlitari + vefhönnuður + útgefandi // listrænn stjórnandi + fjölástríðufullur prjónari // þverflautuleikari + tilfallandi klúðrari // fylgjumst að á Insta @vatnsnesyarn.kristin

Leave A Comment

Fleiri bloggpóstar