Blogg, Gott að vita

Er superwash djöfullinn ?

Myndin er af True Merino garninu sem er ómeðhöndluð hrein merínó ull í fingering grófleika

Spurt er hvort superwash sé djöfullinn.

Neinei, djöfullinn er náttúrulega ekki til svo hann finnst pottþétt ekki í garninu sem við erum að prjóna með. En það er alltaf gott að vita hvað við erum með í höndunum

Skoðanir fólks eru vægast sagt skiptar og margar spurningar og fullyrðingar fljóta um í kosmósinu um ágæti ullar sem hefur verið superwash meðhöndluð. Það sem ég persónulega veit með fullri vissu er að amk garnið sem ég er með til sölu (get þ.a.l ekki talað fyrir annað superwash meðhöndlað garn) er meðhöndlað þannig að það er gert á náttúruvænan máta.

Ull gerð þvoanleg

Málið var, að í fyrstu, þegar garn var gert þvoanlegt í vél þá olli það ákveðinni mengun í vatninu sem frárennslinu af meðhöndluninni var hleypt útí. Það er margur iðnaðurinn sem þarf að hleypa úrgangs-/afgangsvatni út í náttúruna og verður að hreinsa téð frárennsli með einhverjum hætti áður en það er gert og það er þá það sem var lagt á þá sem superwash meðhöndla garn að gera. Á áttunda áratugnum var hinsvegar bannað í EU að hleypa óhreinsuðu frárennsli af superwash meðhöndlun útí náttúruna, eðlilega. Mér er sagt að frárennslið sé það hreint að það megi drekka það, sel ekki dýrar en ég keypti – ég myndi ekki gera það svosem, hehe, en þú veist, það hefur ss verið hreinsað og þetta er staðallinn í EU (hér get ég ekki talað fyrir garn frá löndum utan EU, það er mjög ströng reglugerð um þetta í EU og garnið mitt kemur þaðan). Superwash meðhöndlunin gerir síðan enda þráðanna í garninu þannig að þeir eiga erfitt með að bindast öðrum þráðum í ullinni og þar af leiðandi minnka líkurnar á að garnið hnökri.  Þetta átti við sjálfa aðgerðina að gera ullargarn þvoanlegt.

Brotnar superwash meðhöndlað garn niður í náttúrunni?

Það er önnur hlið á þessu, en hún snýr að því hvort efnið sem notað er til að gera garnið þvoanlegt brotnar niður í náttúrunni þegar superwash meðhöndluðum ullarvörum er hent. Staðreyndin er að það eru litlar eða engar rannsóknir til sem sýna niðurstöður sem geta almennilega sagt til um hvort það er þannig eða ekki. Það eru einhverjar rannsóknir í gangi á þessu augnabliki en engar niðurstöður eru komnar. Þetta er þá bara eitt af því sem við hreinlega vitum ekki með vissu í augnablikinu.

Akkúrat núna eru líkur leiddar að því að efnið sem notað er til að gera ull þvoanlega muni brotna niður með ullinni eftir að henni hefur verið hent þar sem það er varanlega bundið við ullina, þ.e það losnar ekki frá henni, verður ekki eftir.

Plasthúðuð ull ?

Nei. Ullin er ekki plasthúðuð. Efnið sem er notað til að gera hana þvoanlega kallast „resin“ á ensku, ég, eins og svo oft áður, er ekki með íslenskt orð yfir þetta efni. En það er ekki eiginlegt plast heldur efni sem notað er til þess að búa til plast… ertu nokkuð dottin/n út og farin að dagdreyma um ferðalag til útlanda? „Resin“-efnið er sama efni og er notað í t.d klósettpappír og aðar pappírsvörur og er almennt mjög víða notað í vörur sem við notum daglega.

En aftur, ullin er ekki plasthúðuð þannig lagað séð. Það er ekki plasthjúpur utanum bandið eins og það kemur fyrir. Resin efnið er bundið við ullina áður en hún er spunnin og er agnarsmátt, það myndi aldrei sjást með berum augum t.d. Ekki að það skipti máli hvort það sjáist, heldur bara til að leggja áherslu á smæðina. Það er þá varanlega bundið við ullina, þ.e það losnar ekki af og þar sem þræðirnir eða trefjarnar í ullinni eru mikið stærri og resin-efnið er varanlega bundið við hana þá er ekki um að ræða að míkró-plast losni af í þvotti og fari útí sjó og valdi þar usla. Hér er ég ennþá að tala um það sem ég veit um garnið sem ég sel.

Ennþá náttúruleg ull?

Þessi vefst svolítið fyrir mér. Ull er alltaf náttúruleg afurð, það verður ekki tekið af. En er hægt að segja að hún sé 100% náttúruleg ef það er búið að bæta í hana gerviefni? Þú veist.. er allur maturinn ennþá náttúrulegur ef það eru í honum E-efni? Það væri heldur ekki hægt að segja að ullin sé þá orðin gerviefni. Hvað með ull sem inniheldur nælon, er hún líka ónáttúruleg þá ?

Ég held að það sé of sterkt til orða tekið að kalla ullina ónáttúrulega þó að hún hafi verið meðhöndluð þannig að hægt sé að þvo hana. Ég las nefnilega líka norsku greinina sem fór á flug hér um daginn. Fyrirsögnin kallar á þessar vangaveltur, hvort þvoanleg ull sé náttúruleg eða ekki. Stundum, þá endar það þannig að þegar maður les erlendar greinar að sumar staðreyndir týnast í þýðingunni.. ekki að það endilega sé þannig með þessa grein, man bara eftir því við þetta tilefni hvað mér finnst fyndið þegar við á Íslandi bjóðum „börnin“ þegar við bjóðum restina af kaffinu úr kaffikönnunni, en það er beinþýtt úr dönsku þar sem bønnerne (einhverjum hefur heyrst það vera børnene) eru boðnar, sem þýðir baunir, eins og í kaffibaunir, en þær hafa þá fallið í botninn og komið úr könnunni með restinni. Það meikar auðvitað engan sens að það séu börn í kaffikönnunni. Smá útúrdúr bara.

Ætla ég að hætta með superwash meðhöndlaða ull?

Ég hef verið spurð hvort ég ætli ekki að hætta með superwash meðhöndlaða ull, fullyrt var að allir handlitarar á einhverri garn-hátíð (ok, það var á Edinburgh Yarn Festival og sennilega voru það ekki allir frekar en þegar dóttir mín reyndi að sannfæra mig um það þegar hún var 12 ára að allir mættu vera úti þar til þeim sýndist sjálfum) væru að hætta með superwash garn. Þegar ég svaraði því neitandi, var ég spurð hvort það væri vegna þess að það væri svo erfitt að lita ómeðhöndlað garn.

Mitt svar við því er nei, það er ekki erfitt að lita ómeðhöndlaða garnið, það er alveg jafn auðvelt og alveg jafn skemmtilegt. Ómeðhöndlaða garnið hinsvegar tekur litinn öðruvísi. Það gerir líka mohair garn, silkihlaðið garn, alpakka ull og kasmír ef það er mikið hlutfall þessara tegunda í bland við t.d merínó eða BFL (garn af breskri tegund sem kallast Bluefaced Leicester). Þannig er það bara og í handlitunarveröldinni fögnum við því.

Að lokum.. í bili

Mín skoðun er að allir eigi að fá að velja hvaða hráefni unnið er með, enginn með superwash meðhöndlað garn í höndum ætti að vera úthrópaður föðurlandssvikari eða eitthvað annað slæmt.

Það eru síðan kostir og gallar við allt. Það getur alveg talist til kosta superwash meðhöndlaðs garns að það er þvoanlegt í vél. Það gæti verið hentugt í flíkur eða hluti sem útlit er fyrir að þurfi oft að þvo í vél. Þar fyrir utan, fyrir þá sem finnst garn sem hnökrar vera algjör verkur í rassi, þá hnökrar superwash meðhöndlað garn minna. Varðandi það verður þó að athuga að það geta verið sw-meðhöndlaðir þræðir í samsetningu af garni þar sem aðrir þræðir eru það ekki, ég meina að garn sem inniheldur merínó ull, kasmír og silki, sem dæmi, getur verið þannig að merínó ullin er meðhöndluð en kasmír ullin og silkið ekki.

Gallinn væri þá m.a sá að það er staðreynd að superwash meðhöndlað garn er meðhöndlað með efni sem er ekki náttúrulegt og er umdeilt og ekki alveg vitað hvort það brotnar niður í náttúrunni eða ekki.

Er ég að skrifa þetta bara til að selja ?

Já 😉

Hehe, en án gríns þá er tilgangur þessarar færslu fræðsla og ég að deila til þín því sem ég veit um málið. Um mína vöru sérstaklega því ég get ekki talað fyrir vörur sem aðrir eru að selja. Að þessu sögðu þá geturðu fengið bæði superwash meðhöndlað garn og hreina indæla ull hjá mér. Ólíkt öðru (eins og í t.d matvöruverslunum þar sem lífræn epli eru dýrari en önnur epli) þá er ómeðhöndlaða varan hjá mér á sama verði og meðhöndlaða varan.  Ég trúi ekki á vörusnobb 😉

5 thoughts on “Er superwash djöfullinn ?

  1. Anna Gyða Gunnlaugsdóttir skrifar:

    Takk fyrir þessar upplýsingar og vangaveltur, mjög gott innlegg í umræðuna. Kveðja, annagyða

  2. Takk fyrir þennan fróðleik
    Kv Ella Magga 🙂

  3. Kristin A. Emilsdottir skrifar:

    Gott gert og skrifað., Hef einmitt verið að velta þessu fyrir mér og þykir vænt um að fá þessar upplýsingar 🙂

  4. Gerður H Sigurðardóttir skrifar:

    Takk fyrir, er einmitt búinn að spá í þetta.

  5. Fanney skrifar:

    Takk fyrir þessi góðu skrif..

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *