
Peruvian Highland
Forsíða » Peruvian Highland

- Gott að vita
Peruvian Highland
- Höfundur: Kristín
Peruvian Highland ullin er spunnin úr ull af sauðfé sem þrífst í hálöndum Perú. Land þeirra einkennist af fjöllum, gróskumiklum dölum og öfgafullu veðurfari… hljómar eitthvað kunnuglega fyrir Íslendinginn en umrædd sauðfjártegund er blendingur af Corriedale og Merinó.
Ull Corriedale fésins er milligróf (ef þú hugsar mýkt merínó ullarinnar og grófleika íslensku ullarinnar, þar mitt á milli) og eru hár ullarinnar á bilinu 8 – 12cm löng. Til viðmiðunar geta hár íslensku ullarinnar (togsins) verið frá 15 – 20cm löng og hár merónó ullarinnar verið 5 – 12cm.
Merinó ullin er dúnmjúk, hreinlega bara eitt það mýksta en hún er líka mun fíngerðari en Corriedale ullin.
Peruvian Highland ullin er því mjúk og yndisleg viðkomu eins og merínó ullin en er líka smávegis gróf, heldur vatni vel frá og einangrar eins og Corriedale ullin. Það er hreinn unaður að prjóna tvíbandaprjón með þessu garni, það er bara eitthvað annað hvað þetta leggst vel. Ég á enn eftir að prjóna nokkuð annað úr þessu garni.
Þarna er ég að prjóna vettlinga úr Peruvian Highland DK, dökki liturinn heitir Plómublóm og hinn heitir ekki neitt. Það sem ég er að búast við er að þetta garn, amk í þessari uppsetningu (prj. no. 3.5mm, tvíbandaprjón, DK grófleiki) muni einhvern veginn endast og endast og halda og halda forminu. Það á auðvitað eftir að koma betur í ljós þegar ég fer að nota vettlingana en mér finnst það lofa góðu og hef svosem séð mjög góðar umsagnir á netinu líka.
Rúsínan í pulsuendanum (ég segi pulsa af því ég get það) er svo sú að þetta garn er ódýrara í innkaupum en annað garn sem ég er með.
Peruvian Highland ullin verður til hjá mér í fingering og dk grófleika, fer með góðan slatta á Garnival í ár og svo verður hægt að panta hér af vatnsnesyarn.is eftir það.
Fleiri færslur


Peruvian Highland
Vatnsnes Yarn bloggið
Þetta blogg er um handlitað garn, handlitun, liti, prjón, hekl og allt sem viðkemur þeirri iðju að prjóna og hekla.
Ritari er Kristín, listrænn stjórnandi og sjálfskipaður einráður hjá Vatnsnes Yarn.