
Prjónfestuprufur
Forsíða » Prjónfestuprufur

- Blogg
Prjónfestuprufur
- Höfundur: Kristín
Tók eftir því um daginn að ef ég prjóna t.d peysu að þá eru ermarnar alltaf í mun þéttari prjónfestu heldur en bolurinn. Ég er prjónfestuprufuletingi (PPL) og hef ekki verið að vinna með að gera prjónfestuprufur svona í gegnum tíðina. Ég ákvað að það væri þess virði að gera prjónfestuprufur fyrir akkúrat ekkert verkefni bara til þess að sjá muninn á prufu sem er prjónuð fram og til baka og svo prjónuð í hring með magic loop – aðallega vegna þess að ég var að taka inn nýtt garn sem ég hef ekki prjónað með áður.
Ég reyndar gerði prufur úr tveimur tegundum af garni, allt á 3.5mm prjóna (Forté). Hér koma niðurstöður fyrir Peruvian Highland DK. Munurinn er eiginlega hálf óþægilegur.
Prufan til vinstri er prjónuð fram og til baka og er að gefa mér 20L og 27 umf á 10cm. Prufan til hægri er prjónuð í hring með magic loop aðferðinni og gefur mér 22L og 29umf á 10cm. Það munar þarna 2L OG 2 umf!
Hin garntegundin er ekki komin með nafn en er 100% merinó ull, einnig í DK grófleika, sama prjónastærð og gerð.
Þessi gefur mér 21L og 30umf á prufunni til vinstri, prjónuð fram og til baka og 23L og 30umf á þeirri sem prjónuð er í hring með magic loop. Sjáðu að það er einnig 2L munur en enginn munur á umferðafjölda.
Ég hugsa að niðurstöður prjónfestuprufuletingjans séu að það sé jafnvel nauðsynlegra en fyrr var talið að gera prufu og vera þá tilbúin fyrir því að nota jafnvel eina prjónastærð í bol og aðra í ermarnar.
Fleiri færslur


Peruvian Highland
Vatnsnes Yarn bloggið
Þetta blogg er um handlitað garn, handlitun, liti, prjón, hekl og allt sem viðkemur þeirri iðju að prjóna og hekla.
Ritari er Kristín, listrænn stjórnandi og sjálfskipaður einráður hjá Vatnsnes Yarn.