Vatnsnes Yarn í Ömmu mús og Garnbúð Eddu
Það er náttúrulega vandræðalegt þegar kona er síðust með fréttirnar á sínu eigin bloggi. En fréttatilkynningin er þessi:
Vatnsnes Yarn er nú að finna hjá Ömmu mús í Reykjavík og í Garnbúð Eddu í Hafnarfirði.
Þetta eru meira en mánaðargamlar fréttir.. En þú veist, betra seint en aldrei.
Amma mús
Amma mús er auðvitað æðisleg búð og Vatnsnes garnið hefur rokið þaðan út, þær svo indælar sem vinna þar, ég er bara alveg ástfangin. Amma mús er með Soft Sock garnið, bæði í 100 gr hespum og mini-hespur (20g). Soft Sock er 100% súpermjúk superwash merino ull, fingering grófleiki.
Garnbúð Eddu
Svo er það Garnbúð Eddu, svolítið öðruvísi verkefni í gangi þar. Garnbúð Eddu er staðsett inní Litlu hönnunarbúðinni á Strandgötu í Hafnarfirði. Þar getur þú keypt Perfect Sock og Merino Cash Sport.
Edda er auðvitað snillingur og mikill hönnuður. Hún heldur þar námskeið og næst á dagskrá hjá henni er samhekl fyrir sjal eftir hana, sem heitir Áróra.
Ég er á fullu að lita garn fyrir þetta samhekl sem byrjar þann 26.mars, þú getur fundið nánari upplýsingar um það hér.
Ég held svo að sjálfsögðu áfram að þjónusta alla landsmenn og hér á vefnum getur þú pantað allar garntegundir sem Vatnsnes Yarn er með 😉
Litasamsetningar
Það kemur svo oft fyrir þegar ég er að ganga frá garni sem hefur verið pantað hjá mér að ég fell í stafi yfir litasamsetningunum. Sem dæmi var þetta pantað hjá mér um daginn, var reyndar búin að setja þetta á Facebook síðuna, en bara svo góð vísa, best að kveða hana oft 🙂
Þetta eru, frá vinstri, Eldlilja, Gullbrá, Sætur, Á sjó og Fjarlæg lönd á Soft Sock Twist garninu, sem er, eins og Soft Sock sem ég nefndi hér að ofan, 100% merino ull en er tveggja þráða (meðan Soft Sock er fjögurra þráða) og þræðirnir eru þéttsnúnir (high twist), gefur öðruvísi prjónles en garn sem ekki er spunnið þéttsnúið.
Þegar ég var að pakka síðustu pöntu fyrir Ömmu mús datt ég niður á þessa. Þetta er Bláber og Snjáldra sem er nýr litur. Ég er svo að sjá fyrir mér bæði sjal og peysu, Snjáldra svo frábær kontrast litur við Bláber. Mig klæjar í fingurna að prjóna gataprjónsbekk með þessu, eða sjal .. eða peysu.. eða vettlinga..
Fannst þetta líka koma vel út. Þarna, frá vinstri, Madrigal (hægt að panta innan skamms), Lady Marmelade og Verma(hægt að panta innan skamms). Madrigal er nýr litur og Verma enn nýrri.
Síðast en ekki síst. Nokkrir spekklaðir litir lagðir saman og einn heillitur (semi solid / tonal). Madrigal, Snjáldra, Verma og Rilla.
Á prjónunum
Ég er með tvö verkefni á prjónunum, ef ég tel ekki það sem er í öllum pokunum inn í skáp hjá mér. Annarsvegar er það síð golla sem ég er að prjóna úr Einrum garninu og svo er það sjal úr Merino Cash Sport
Í enn einu kuldakastinu fannst mér að ég þyrfti að fitja uppá stóru, þéttu og kósý sjali. Valdi Drachenfels. Held þetta eigi eftir að koma vel út.
Þar til næst 🙂
Góðan dag. Er sami grófleiki á öllu garninu..er að spá í sokka og húfu..
Sæl Vigdís
Nei það er mismunandi grófleiki, allt sem heitir -sock eða -fingering er fyrir prjóna 2.5 til 3.5 og allt sem heitir -DK er fyrir prjóna 3.5 til 4.5 🙂