Í þessum skrifuðu er hér appelsínugul viðvörun en ekkert veður samt. Einhverra hluta vegna er Hvammstangi, þar sem ég bý, oft hálfpartinn á milli veðurkerfa. Gildir þá einu hvort um er að ræða slæmt veður eða gott veður.

Tekið útum gluggann til sönnunar um núll veður í appelsínugulri veðurviðvörun. Enginn hroki samt.

Við erum staðsett svona 7km frá þjóðveginum og á þessum vegkafla, sem kallast í daglegu tali Norðurbraut, eru oft alveg 4 tegundir af óveðri, sé þannig veður. Það getur alveg vel verið að inní bænum sé bara fínt vetrarveður en á Norðurbraut sé fyrst hífandi rok, þá enn hvassara, svo skafrenningur og sést ekki á milli stika, svo hálfgert logn og svo blindhríð. Svo kemur að gatnamótum og þar er bærilegt veður.

Talandi um stikur, síðasta sumar var bætt inní stikum á téðan vegkafla, þannig á honum eru helmingi fleiri stikur en venjulega.

Nýja vinnustofan

Nú í byrjun árs tók ég í gagnið nýja vinnustofu. Ég hafði verið að lita í Skrúðvangi sem eru gróðurhús á Laugarbakka en þar sem Skrúðvangur er til sölu og ég hætt með hann sem slíkan, þá ákvað ég að búa til vinnustofu úr smáhýsi sem ég keypti frá ferðaþjónustu aðila hér í sveitarfélaginu.

Ég ætlaði smáhýsið fyrst bara fyrir lagerpláss og litla búð en svo ákvað ég að selja Skrúðvang og vantaði því vinnustofu. Lagerinn og garnið sem ég á til litað fær því að hanga áfram inni í húsi… mínu húsi, sem vinnustofan stendur við hliðina á.

Allt er vænt sem vel er grænt

Ég veit ekki hvort það er staðreyndin að ég er ekki að fara að rækta 1000m2 af jarðarberjum og grænmeti í sumar að ég laðast svona líka rosalega að grænum litum. Er búin að prjóna dökk græna rúllukragapeysu úr Merino DK frá Vatnsnes Yarn

og þó svo að ég sé með fjöldan allan af öðrum peysum á prjónunum og allskonar annað (saga sem þú kannast kannski við) þá fitjaði ég uppá annarri grænni peysu.

Það var nefnilega þannig að Edda í Garnbúð Eddu bað mig að lita fyrir janúar-áskriftarklúbbinn hjá sér. Garnið átti að vera í sjal í 6 litum sem blandast hvorum öðrum á reglubundinn máta (feida saman). Ákváðum að ég myndi búa til sett með 6 50g Merino DK hespum. Þarf varla að taka fram að sjalið er einstaklega djúsí.

Eitt af settunum var í grænum tónum. Lang oftast er ég alveg svakalega hrifin af hráefninu sem ég er að vinna með og í þetta skiptið gat ég ekki annað en hlýtt sjálfri mér þegar ég stakk uppá að ég myndi henda í einskonar feid peysu. Stóðst ekki mátið að taka tvo brúna liti með nokkrum grænum litum.

Ég er ss að blanda litasamskeytin þannig að ég byrja á að setja fáar lykkjur af nýjum lit inn, t.d á 5L fresti, svo á 3L fresti svo nokkrar umf. ein og ein L af sínhvorum litnum, breyti svo í að blanda fyrri litinn út, og set þá 3L af nýja litnum á móti 1L af fyrri lit, svo 5L og svo hætt ég með fyrri litinn og held áfram með þennan nýja og byrja svo að blanda inn næsta lit. Er að vinna í að skoða hvaða taktur er bestur í þessu.

Skærir litir

Fékk spurningu hvort ég ætti einhverja neon liti. Það átti ég ekki en lítið mál að lita skæra liti, þú veist, fyrst vinnustofan er komin í gagnið og svona. Litaði þessvegna skær- gulan, grænan, fjólubláan, bláan, bleikan og appelsínuguan á Merino DK. Skemmtilegt í húfur og svona. Afgangar af svona skærlituðu bandi geta síðan verið góðir til þess að brjóta upp önnur verkefni. Sá á síðustu Prjónagleði t.d hjá Systraböndum, peysu sem var í að mig minnir gráum litum eða blöndu af gráum og bláum en svo var uppfitin í skærum litum, virkilega skemmtilegt. Ég á nokkrar hespur af þessum skæru litum til ss á Merino DK en svo er hægt að panta á öllum garngerðum.

AFSLÁTTUR  – Sokkauppskrift

Með minna aðventudagatalinu í fyrra, fylgdi uppskrift að sokkum. Hún er jafnframt fyrsta uppskriftin sem ég gef út. Þú getur keypt hana hér á www.vatnsnesyarn.is og á Ravelry.

Það er Kristín sem ritar - lýsandi stikkorð:

handlitari + vefhönnuður + útgefandi // listrænn stjórnandi + fjölástríðufullur prjónari // þverflautuleikari + tilfallandi klúðrari // fylgjumst að á Insta @vatnsnesyarn.kristin

Skrifa mér skilaboð

Aðrir bloggpóstar

Gefins

Vatnsnes Yarn bloggið

Þetta blogg er um handlitað garn, handlitun, liti, prjón, hekl og allt sem viðkemur þeirri iðju að prjóna og hekla.

Ritari er Kristín, listrænn stjórnandi og sjálfskipaður einráður hjá Vatnsnes Yarn.

Færslu flokkar

Færslusafn

Nýlegar færslur

Gefins

Vörur