Fréttir

Afhverju handlitað garn? ..og afhverju er það dýrara ?

Eða kannski fyrst, hvað er handlitun ?

Handlitun felur í sér að lita garn, eða aðra textíl vöru, með þar til gerðum litum eða jurtum, í höndunum. Litina er hægt að fá úr náttúrunni, þ.e frá jurtum, eða litari getur keypt duftliti sem eru síðan blandaðir eftir kúnstarinnar reglum.

En afhverju handlitað garn og afhverju kostar það meira en verksmiðjuframleitt garn?

Gæði og velferð

Handlitari hefur einstakt tækifæri til þess að kaupa inn ólitað garn í hæstu gæðum. Ef ég tala fyrir sjálfa mig þá get ég sagt þér að allt garnið sem litað er undir merkjum Vatnsnes Yarn, er í hæstu gæðum, hvergi í ferlinu hefur dýraníð komið við sögu og um enga þrælkunarvinnu er að ræða, ég hef skrifað ítarlegri grein um þetta sem ég tel mikilvægt að þú lesir ef þú vilt vita hvaða hráefni þú ert með í höndunum þegar þú kaupir Vatnsnes Yarn. Ullin sem ég kaupi inn er af sauðfé, geitum, alpakka dýrum (ofl.) sem alin eru við bestu aðstæður. Ullin er svo spunnin í spunaverksmiðjum sem oft eru í nærumhverfi bændanna. Þvottekta (superwash) meðhöndlunin er síðan eftir öllum hæstu stöðlum og standördum (ef þú vilt vita meira um superwash meðhöndlun, þá mæli ég með þessari grein)Ég veit að lang flestir (ef ekki allir) handlitarar á Íslandi kaupa inn band í hæsta gæðaflokki.

Þessi yfirlýsing svarar spurningunni að einhverju leiti. Þú ert með mjög góðan efnivið í höndunum þegar þú notar handlitað garn. Það kristallast kannski helst í því að flíkin sem þú býrð til úr garninu endist lengur (ef þú hefur áhuga á að vita afhverju garn sem hnökrar er ekki garn í lélegari gæðum, geturðu horft á þátt minn um það). Þetta svarar eiginlega líka að einhverju leiti afhverju handlitað garn er dýrara en verksmiðjuframleitt garn, bara því flest allt sem unnið er í höndunum og er ekki fjöldaframleitt, er yfirleitt dýrara.

Kostnaður, vinnan og hvernig ég og þú erum partur af mikilvægri hringrás

Það kemur eiginlega á óvart hversu mikið púl það er að lita garn! Ég verð samt síðasta manneskjan til þess að kveinka mér yfir vinnu, mér finnst gaman að vinna og geri mikið af því. En, fyrir okkur sem höfum atvinnu af því að lita garn, þá er það auðvitað þannig, þegar öllu er á botninn hvolft, að starfssemin þarf að skila sér þannig að hægt sé að greiða laun (og náttúrulega allt annað) – alls ekki misskilja – ég er ekki á neinum svaka launum, eiginlega langt í frá. En þegar ég hef verðlagt hespurnar frá mér þá geri ég það þannig að það sé í jafnvægi og sanngjarnt fyrir þig sem kaupanda og fyrir mig sem launamann.

Hversu mikil vinna fer í að lita garn, spyrðu. Ef ég ætti að skipta vinnunni sem fer í að fá þig til að kaupa garn frá mér  í hluta, þá myndi ég skipta því svona: 20% vinna við að lita garnið, þ.e undirbúa það fyrir litun, litun, þvottur, þurrkun, undið í hespur, merkingar og 80% fer í allan andskotann annað eins og að reka vefverslun, sem felur í sér að taka myndir, vinna myndir, skrá vörur, pakka pöntunum og senda, framleiða efni (bloggpóstar, youtube og samfélagsmiðlar), eiga samskipti við alla yndælu viðskiptavinina mína, græja bókhaldið, skrifa út reikninga og svo er töluverð vinna í því falin að markaðssetja vöruna sína. Sem betur fer finnst mér þetta allt skemmtilegt og hef engar óskir eða langanir til þess að vera að neinu öðru.

Fyrir utan þetta, þá er mikilvægt fyrir mig að vera virkur hlekkur í viðskiptakeðjunni minni. Keðjan er svona: ég kaupi af birgjunum mínum sem kaupa af bændum og spunaverksmiðjum sem styrkja hvort annað í sínu nærumhverfi – í hina áttina þá sel ég handlitað garn í heildsölu til garnverslana sem gerir þeim kleift að vera með handlitað garn, sem í sjálfusér er handunnið handverk af listrænum toga, í boði fyrir sína viðskiptavini, hér eru þá garnverslanir sem versla af mér í heildsölu og ég að styðja hvort annað í okkar nærumhverfi.

Þú ert líka partur af keðjunni.

Í hvert skipti sem þú kaupir garn af handlitara (sem í flestum tilfellum er „one woman show“) eða úr garnbúðinni, eflist starfssemin og litarinn getur haldið áfram að kaupa inn ólitað garn af birgjanum sem verslaði það af bændunum og spunaverksmiðjunum. Þú veist, mikilvæg hringrás… ég gæti farið með þetta lengra og farið með þig útí hversu mikið betra það er að búa til sínar eigin flíkur heldur en að kaupa fjöldaframleitt.. en það er sennilega efni í aðra grein.. eða fjórar 😉

Og þá meira í áttina að því að svara „afhverju handlitað garn“ 

Fyrir utan ofantalið.

Mér er að reynast erfitt að útskýra hvað í fjáranum það er eiginlega sem stígur í vænginn við mann, togar í mann og kveikir í hugmyndafluginu, þegar ég sé girnilegt garn. Ég er samt viss um að þú veist alveg hvað ég er að tala um.

Kannski má útskýra þetta þannig að sköpunarkrafturinn, sem við öll erum gædd, sé að tala við okkur, lokka fram löngun til að skapa, búa eitthvað til. Að þetta sé innra afl. Að skapa veitir manni ekki bara gleði heldur líka almenna lífsánægju og fullnægju – annars væri enginn að því. Það er eitthvað  við það að nota yndislegan efnivið, gæða efnivið, fallegan efnivið.

Ég held ég geti best lýst þessu þannig, eins og ég upplifi það, að ég litaði um daginn hespu með nýrri tækni. Mér finnst hún koma svo óóótrúlega fallega út að ég er að hugsa um þessa hespu oft á dag. Ég hef ekki almennilega haft tíma til að demba mér í að prjóna aðeins með þessum nýja lit fyrr en í gærkvöldi og það er búin að vera stanslaus tilhlökkun alveg síðan ég litaði þessa hespu – ætli sé ekki 10 dagar eða eitthvað síðan. Ég varð sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Myndin er hér efst í þessari grein og þennan lit er ég búin að nefna „Verður gos ?“ (af augljósum ástæðum 😉 )

Málið er þetta: það er svo ótrúlega mikilvægt skapa sér eitthvað til þess að vera spennt yfir, finna fyrir tilhlökkun, ánægju, fullnægju, gleði og bara ást! já ég sagði ást! Það er auðvitað eitt það mikilvægasta, það er nefnilega alveg nóg í gangi hjá flestum sem á einum of auðvelt með að draga mann niður.

Ég er að vona að þetta svari spurningunni um afhverju handlitað garn og afhverju er það dýrara að einhverju leiti. Ást og friður!

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *